Það getur borgað sig að vera borgarfulltrúi eða varaborgarfulltrúi, og þá sérstaklega ef fulltrúar bæta við sig setu í nefndum, allt að þremur, og jafnvel setu í stjórnum fyrirtækja sem borgarfulltrúar eiga föst sæti í.
Á vef Reykjavíkurborgar má sjá heildarlaunakostnað borgarfulltrúa, en launakostnaður þeirra og þóknanir annarra kjörinna fulltrúa taka breytingum til samræmis við launavísitölu. Grunnlaunin miða við þróun launavísitölu frá marsmánuði 2013 og uppfærast í janúar og júlí ár hvert. Launin sem hér um ræðir eru frá 1. júlí síðastliðnum.
Ekki er tekin afstaða til vinnuframlags og/eða mætingar borgarfulltrúa á fundi, en leggja má huglægt mat á slíkt með lestri fundargerða borgarinnar.
Borgarfulltrúar eru 23 talsins og varaborgarfulltrúar eru átta talsins. Um er að ræða greiðslur í sex liðum: grunnlaun, formennskuálag, forseti og oddvitar, borgarráð, þrjár nefndir og starfskostnaður.
Allir borgarfulltrúar fá grunnlaun sem greiðslu, 1.053.896 kr. hver, og starfskostnað, 76.112 kr. Hver til að mæta öllum persónulegum kostnaði vegna starfsins.
Tíu þeirra fá að auki greiðslu undir einum lið og átta þeirra fá greiðslu undir tveimur liðum.
Átta þeirra fá greitt formennskuálag upp á 263.474 kr.
Einn borgarfulltrúi fær greitt 526.948 kr. sem forseti og oddviti, þrír aðrir fá greitt 263.474 kr. undir sama lið.
17 fá greiðslu fyrir setu í borgarráði. Dagur B. Eggertsson fyrrum borgarstjóri fær hæstu greiðsluna, 421.558 kr., átta fá greiðslu upp á 263.474 kr. Undir þessum lið og átta fá 63.234 kr.
Fyrir setu í þremur nefndum fá átta borgarfulltrúar 263.474 kr.
Laun átta varaborgarfulltrúa eru 737.727 kr. Og allir fá greiddan starfskostnað, 76.112 kr.
Einn fær greiðslu sem forseti og oddviti, 263.474 kr., einn fær 63.234 kr. Greiddar fyrir setu í borgarráði og fimm fá greiðslu fyrir setu í þremur nefndum, 263.474 kr.
Borgarfulltrúar fá fasta mánaðarlega þóknun fyrir stjórnarmennsku í Félagsbústöðum hf., Strætó bs., Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs. (borgarstjóri er formaður stjórnar), Faxaflóahöfnum sf., Malbikunarstöðinni Höfða hf., SORPU bs., Orkuveitu Reykjavíkur, Brú lífeyrissjóði og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varamenn í umræddum stjórnum fá greitt fyrir hvern setinn fund. Almannavarnanefnd greiðir aðeins fyrir setna fundi. Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fær ekki greitt fyrir stjórnarsetu en varamenn í stjórninni fá greitt fyrir þá fundi sem þeir sitja. Fyrir svæðisskipulagsnefnd og aðrar nefndir Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er einnig greitt fyrir setna fundi. Þær tölur eru því allar breytilegar milli mánaða.
Launagreiðslur og álag á laun er skýrt nánar með eftirfarandi hætti á vef Reykjavíkurborgar:
Borgarfulltrúi á rétt á 25% álagi á laun ef hann gegnir formennsku í fagráði/borgarstjórnarflokki eða ef hann situr í þremur eða fleiri fastanefndum.