fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Erfitt að vita til þess að fimm menn stóðu hjá og leyfðu nauðguninni að gerast – „Hann sagði við þá að hann ætlaði að athuga hvort ég myndi ýta honum af eða ekki“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 28. september 2024 09:00

Pálína Ósk Ómarsdóttir. Mynd/Instagram @palinaoskomars

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2014 var Pálínu Ósk Ómarsdóttur nauðgað af karlmanni sem hún þekkti ekki. Þetta kvöld tók maðurinn hluta af henni sem henni hefur ekki tekist að fá aftur. Pálína kærði manninn og var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi eftir þriggja ára dómsmál. Það líður ekki sá dagur sem hún endurupplifir ekki ofbeldið og hefur það litað líf hennar síðan. Hún fékk fæðingarþunglyndi í kjölfar fæðinga barnanna sinna þriggja og á erfitt með að vera ein. Hún segir að ef það væri ekki fyrir hjálpina sem henni hefur staðið til boða, eins og sálfræðingar, ljósmæður sem vinna sérstaklega með þolendum og aukin umræða um slík brot og skömmina, þá veit hún ekki hvar hún væri.

Pálína, snyrtifræðingur og athafnakona, er gestur vikunnar í Fókus, hlaðvarpsþætti DV. Hún er eigandi snyrtistofunnar Eden og netverslunarinnar La Belle Beauty. Hún nýtur einnig vinsælda á Instagram en hefur sankað að sér stórum og dyggum fylgjendahóp fyrir að koma til dyranna eins og hún er klædd og ræða einlæg um erfið málefni.

Hægt er að horfa á brot úr þættinum hér að neðan. Þáttinn í heild sinni má horfa á hér, einnig er hægt að hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

video
play-sharp-fill

Pálína býr rétt fyrir utan Sauðárkrók og þarf því að fara til Akureyrar til að sækja sér læknisþjónustu. Það reynist henni alltaf erfitt en það er ákveðin gata sem hún getur ekki keyrt niður.

„Það líður ekki dagur sem ég endurupplifi þetta ekki, alla daga fæ ég flashback. Það er bara svo margt sem minnir mig á þetta, ég kemst ekki í gegnum heilan dag án þess að endurupplifa atburðinn.“

Mörg vitni

Pálína hefur í gegnum árin lært að díla við þetta, að láta minninguna fljóta fram hjá sér frekar en að grípa hana.

„Þetta sprakk upp þegar ég átti miðjustrákinn minn. Þannig að eftir það leitaði ég mér hjálpar. Ég fékk skýrsluna sem var tekin við hann, til að skilja betur hvað gekk á, til að vinna úr öllu. Ég veit ekki almennilega hvað gerðist, ég var áfengisdauð og þetta var maður sem ég hafði aldrei séð og þekki ekki neitt, níu árum eldri en ég.

Eina ástæðan fyrir því að ég veit hvað gekk á því það voru svo mörg vitni. En ég fæ svona flashback þegar ég er að ranka við mér og dett út. Þetta er eins og padda inn í hausnum á mér, ég næ henni ekki út.“

Pálína Ósk Ómarsdóttir er gestur vikunnar í Fókus.

„Það dó eitthvað inni í mér þennan dag“

Pálína hefur unnið með mörgum sálfræðingum.

„Ég fór í gegnum Klepp og hef alltaf sótt mér hjálpar. Ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki gert það. En þetta hefur svo miklu víðtækari áhrif á mann en fólk gerir sér grein fyrir. Það dó eitthvað inni í mér þennan dag og ég hef ekki getað fengið þennan hlut aftur.“

Varð reið þegar hún las skýrsluna

Pálína kærði manninn og vann bæði í Landsrétti og Hæstarétti. Hann var dæmdur í tveggja ára fangelsi. Allt ferlið tók þrjú ár.

„Þetta gerðist í ágúst og ég held að það hafi verið í október eða nóvember [árið eftir] að ég fékk að vita að málið myndi fara fyrir dóm. Þá hitti ég lögfræðing og það var í fyrsta skipti sem ég fékk að lesa skýrsluna frá honum og öllum öðrum sem var tekið skýrslur af,“ segir Pálína. Það hafi reynst henni mikið áfall.

„Þá fyrst var ég bara: „Ertu að fokking djóka?“ Þetta var svo allt planað, hann vissi upp á hár hvað hann var að gera. Það var enginn sem hjálpaði mér. Það voru fimm strákar úti og vissu allir hvað hann væri að fara að gera, því hann sagði við þá að hann ætlaði að athuga hvort ég myndi ýta honum af eða ekki,“ segir Pálína.

„Eftir það fékk ég rosa mikla reiði, að það hafi enginn hjálpað mér og líka þá sá ég að þetta væri ekkert mér að kenna. Það var rosa gott að sjá það en ég þurfti að bíða í rúmt ár til að fá þær upplýsingar.“

Mynd/Instagram @palinaoskomars

Aldrei fengið afsökunarbeiðni frá þeim sem stóðu hjá

Hún segir fimm karlmenn hafa vitað hvað gerandinn ætlaði sér, fimm menn hafi staðið hjá og borið síðan vitni um það þegar þeir ræddu við lögreglu. Aðspurð hvort hún hefur fengið afsökunarbeiðni frá einhverjum þeirra svarar Pálína neitandi.

„Þessir strákar í dag hafa ekki beðið mig afsökunar, ég veit að einn þeirra á barn. […] Þeir breyttu [framburðinum sínum] í dómsal. Sem var ekki gott fyrir hann. Þeir sögðu að ég hafi viljað þetta og alls konar svona, en ég var við það að fá áfengiseitrun,“ segir hún.

Pálína var að skemmta sér með þáverandi vinkonu sinni og þær fóru í eftirpartý í heimahúsi. Á þessum tímapunkti var Pálína orðin bersýnilega mjög ölvuð, það þurfti til dæmis að hjálpa henni upp í bílinn á leið þangað.

Vinkona hennar fór heim með strák og skildi Pálínu eftir en man hún sjálf lítið eftir því sem gerðist. Brot úr þættinum þar sem Pálína ræðir þetta nánar má horfa á hér að ofan. Smelltu hér til að horfa á þáttinn í heild sinni eða hlustaðu á Spotify.

Fylgstu með Pálínu á Instagram og TikTok.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir
Hide picture