Birkir Heimisson miðjumaður Þórs á Akureyri er að öllum líkindum að ganga aftur í raðir Vals samkvæmt heimildum 433.is.
Birkir gekk í raðir Þórs frá Val í vor og lék með uppeldisfélagi sínu í Lengjudeildinni í sumar. Þessi öflugi miðjumaður er aftur á leið á Hlíðarenda.
„Það er ekkert orðið staðfest, ég veit það ekki. Það verður að koma í ljós og gerist líklega á næstu dögum,“ segir Birkir í samtali við 433.is.
Birkir er öflugur miðjumaður sem er fæddur árið 2000 en hann kom til Vals árið 2020 eftir dvöl í Hollandi sem atvinnumaður.
Samkvæmt heimildum 433.is er Valur að kaupa Birki aftur frá Þór. Birkir lék 17 leiki með Þór í Lengjudeildinni í sumar og skoraði í þeim fimm mörk.
Það vakti nokkra athygli þegar Valur seldi Birki rétt fyrir mót en félagið er nú að krækja í kappann á nýjan leik.