Pálína er eigandi snyrtistofunnar Eden og netverslunarinnar La Belle Beauty. Hún nýtur einnig vinsælda á Instagram en hefur sankað að sér stórum og dyggum fylgjendahóp fyrir að koma til dyranna eins og hún er klædd og ræða einlæg um erfið málefni.
Í þættinum opnar hún sig um fæðingarþunglyndi, nauðgun sem hún varð fyrir og hvernig sú reynsla breytti henni til frambúðar. Hún ræðir um dómsmálið og árin þrjú sem fóru í að leita réttar síns sem enduðu með gerandann í fangelsi. Pálína ræðir einnig um líkamsímynd, samfélagsmiðla, fegrunaraðgerðir og margt annað. Það má horfa á þáttinn hér að neðan. Einnig er hægt að hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Pálína er fædd og uppalin á sveitabæ rétt fyrir utan Sauðárkrók. Foreldrar hennar reka eitt af stærstu kúabúum landsins og munu Pálína og tvíburasystir hennar, Elísa Ósk, taka við rekstrinum í framtíðinni. Nú er Pálína búsett í sama húsi og hún ólst upp í, en hún og maðurinn hennar keyptu æskuheimilið fyrir nokkrum árum og búa þar með börnunum þeirra þremur, tveimur drengjum, fæddum 2018 og 2020, og dóttur, fædd 2023.
Pálína fékk fæðingarþunglyndi eftir allar þrjár meðgöngurnar. „Ég fann fyrir fæðingarþunglyndi með fyrsta strákinn minn en það var ekkert á við eins og eftir fæðinguna hjá miðju stráknum mínum,“ segir hún og bætir við að hún hefur gengið í gegnum mörg áföll í gegnum árin sem hafa mótað hana.
„Ég hef verið í rosa miklum ofbeldissamböndum. Ég var fimmtán ára þegar fyrsti kærastinn minn reyndi að kyrkja mig. Ég lenti svo í nauðgun þegar ég var 21 árs, sem gerðist á Akureyri. Þannig það var mjög erfitt fyrir mig að fara inn á Akureyri, því við þurftum að fara í skoðun þar og eiga inni á sjúkrahúsinu þar.“
Þegar Pálína var ólétt af miðjustráknum kom Covid af fullum krafti og einkenndist meðgangan af kvíða og innilokun.
„Ég fékk rosalegan kvíða, ég varð rosalega lífshrædd. Ég átti erfitt með að fara að sofa. Mér fannst allt eitthvað svo í lausu lofti og átti mjög erfitt síðustu vikurnar og náttúrulega innilokuð með lítið barn. Hann var ekki með dagmömmunni því ég vildi ekki fá Covid fyrir fæðingu. Svo í fæðingunni, ég hef alltaf þurft að fara í gangsetningu, fékk maðurinn minn ekki að vera með mér fyrr en ég var komin í virka fæðingu, sem var um rúmlega fjögur leytið. Drengurinn kom í heiminn einhvern tíma í kringum sjö og kom með hraði, á sjö mínútum, og var alveg blár í framan. Hann byrjaði ekki að anda strax, naflastrengurinn hafði flækst fyrir og ég fékk pínu áfall við að sjá hann. Svo byrjaði hann að gráta og ég fékk hann í fangið, og ég var frosin einhvern veginn og þá hringdi lögreglan,“ segir hún.
Lögreglan hafði verið að hringja látlaust alla fæðinguna. Jón Gunnar, maður Pálínu, svaraði fljótlega eftir að drengurinn kom í heiminn.
„Lögreglan var að hringja til að saka okkur um að hafa hurðað bíl,“ segir hún.
Jón sagði að þetta hafi ekki verið þau að verki og þar með lauk málinu, en allt þetta vakti upp erfiðar minningar og tilfinningar, á mjög viðkvæmum tíma.
„Því síðasta skipti sem ég átti afskipti af lögreglunni inni á Akureyri var þegar ég var að leggja fram kæru. Þá triggeraðist ég líka. Það kom allt tengt nauðguninni upp og það var mjög erfitt. Þær voru mjög lengi að sauma mig líka, og svo var Jón farinn klukkan ellefu,“ segir Pálína.
Jón mátti ekki vera hjá henni vegna sóttvarnarreglna. Nýfæddur sonur hennar var marinn og blár og hafði hún miklar áhyggjur. „Ég fann að líkaminn minn fór í… það er mjög erfitt að útskýra þetta en ég varð víruð einhvern veginn. Ég gat ekki sofnað og svaf ekki í tvo sólarhringa. Ljósmæðurnar vildu mjög lítið hjálpa mér og taka hann vegna Covid. Þær tóku hann í eitt skipti eftir að ég grátbað þær um að taka hann fram svo ég gæti hvílt mig, en ég náði ekki að sofna. Samt búin að taka svefnlyf en ég var svo víruð.“
Tveimur dögum seinna fékk Pálína að fara heim. „Það var enn Covid í gangi. Við vorum mikið ein heima og ég [líka með eldri drenginn] sem var mjög virkur,“ segir hún.
„Ég fékk rosalegt þunglyndi og fór að endurupplifa (e. flashback) nauðgunina alla daga og það var ekki fyrr en hann var um 6-8 vikna þegar ég fór í Mæðravernd og settist niður og sagði: „Ég verð að fá hjálp, ég get ekki meira.““
Í kjölfarið komst hún inn hjá geðteymi hjá HSN og var sett á kvíðalyf. „Sem gerðu allt miklu verra. Þau virkuðu öfugt á mig. Ég endaði á því að skilja af hverju fólk vildi ekki lifa, sem var mjög erfitt.“
Það komst seinna í ljós að Pálína er með geðhvarfasýki í einhverjum mæli, eða á geðhvarfarófi eins og hún orðar það. Það útskýrði af hverju kvíðalyfin fóru svona illa í hana. „Ég var sett á önnur lyf sem hjálpuðu mér að komast upp úr þessu en ég var enn með fæðingarþunglyndi.“
Fæðingarþunglyndi kemur fram í ýmsum myndum og fann Pálína mikið fyrir því líkamlega. „Ég fann til í öllum brjóstkassanum. Ég fór að vinna þegar hann var tveggja mánaða því ég gat ekki verið ein heima með sjálfri mér. Það er það versta sem ég geri, að vera ein með sjálfri mér, enn í dag […] Því þá koma allar þessar óumbeðnu hugsanir sem ég vil ekki hafa. Það var mjög erfitt og mér finnst mjög erfitt í dag að hafa farið að vinna svona snemma. Þetta var ákveðin skömm fyrir mig.“
Pálína hefur verið að vinna úr skömminni með aðstoð sálfræðings og er að læra að sýna sér mildi fyrir að hafa tekið ákvörðun sem hjálpaði henni að líða betur og verða betri móðir.
Prófaðu að endurhlaða síðuna ef þú sérð ekki færsluna hér að neðan.
View this post on Instagram
„Þegar ég varð ólétt af stelpunni minni þá bað ég um að hitta ljósmóður [sem ég hafði áður heyrt um] sem sérhæfir sig í að vinna með konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi, til þess að undirbúa mig fyrir fæðinguna og áframhaldið, og þar komst ég líka inn í teymi sem hjálpar manni með tengslamyndun við barnið.“
Það skipti sköpum að vera með þessa aðstoð og vill Pálína vekja athygli á henni, þar sem margir þolendur vita ekki að hún stendur til boða. Hún vill einnig hvetja konur til að ræða um hlutina, hún segir að það hafi bjargað henni að ræða um þá opinberlega og fá hjálp. Það er mikilvægt að hver kona átti sig á því að hún sé ekki ein og það sé engin skömm í að leita sér hjálpar.
Pálína ræðir nánar um fæðingarþunglyndið, ofbeldið sem hún varð fyrir, samfélagsmiðla, líkamsímynd og margt fleira. Horfðu á þáttinn hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.