fbpx
Fimmtudagur 26.september 2024
Eyjan

Thomas Möller skrifar: Falleinkunn á fjórum sviðum

Eyjan
Miðvikudaginn 25. september 2024 11:04

Thomas Möller er varaþingmaður Viðreisnar í SV kjördæmi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er auðvelt að mæla árangur í íþróttum. Það lið sem skorar fleiri mörk vinnur. Sigurvegarinn í frjálsum íþróttum þarf bara að stökkva hærra, hlaupa hraðar eða kasta kúlunni lengra en hinir.

Þegar þjóðfélög eru mæld að verðleikum skiptir máli að menntun og heilsuvernd sé í lagi, að flestir hafi vinnu, að laun dugi til framfærslu og að jöfn tækifæri, réttlæti og jafnrétti ríki í landinu. Landið okkar fær ágætiseinkunn á þessum sviðum.

Þegar hagkerfi eru metin skiptir máli að verðbólga sé lág, vaxtakjör af lánum séu hagstæð, skattar séu hóflegir og matarverð sé lágt miðað við nágrannalönd.

En það eru einmitt þessi fjögur stóru mál sem eru í ólestri í okkar litla landi. Þau varða stærstu kostnaðarliði heimilanna og eru að mestu leyti afleiðing pólitískra ákvarðana núverandi ríkisstjórnar.

Þegar árangurinn er mældur á þessum 4 sviðum fá stjórnvöld falleinkunn. Skoðum málið nánar.

Í fyrsta lagi er matarverð á Íslandi það þriðja hæsta á Vesturlöndum samkvæmt nýlegri könnun. Þetta háa verðlag er að miklu leyti pólitísk ákvörðun stjórnvalda sem hafa ákveðið að leggja háa tolla á sjálfsagðar matvörur heimilanna sem hefur leitt til hins háa verðlags.

Í nýlegri könnun kom fram að hægt væri að lækka matarverð á vissum matvörum um allt að 43% með tollalækkunum sem myndu auk þess leiða til lækkunar á verðbólgu og þar með lækkun á vísitölutryggðum lánum og vöxtum.

Í öðru lagi eru það skattpíningin en við búum við þá næst hæstu á Vesturlöndum sem hlutfall af þjóðarframleiðslu samkvæmt nýlegri mælingu. Háir skattar eru afleiðingar allt of mikillar yfirbyggingar ríkisstarfseminnar í okkar litla landi, gríðarlegum vaxtakostnaði ríkissjóðs og óhagkvæmum ríkisrekstri á mörgum sviðum.

Fjölmörg tækifæri blasa við til hagræðingar í ríkisrekstri, auk þess sem ríkið stundar umfangsmikla samkeppni við einkareksturinn í landinu en um 70% ríkisfyrirtækja eru í samkeppnisrekstri samkvæmt nýlegt athugun.

Í þriðja lagi erum við með hæstu verðbólgu á Vesturlöndum. Verðbólgan er meðal annars afleiðing af viðvarandi hallarekstri ríkissjóðs og því að háir vextir í landinu okkar hækka verð á vörum, þjónustu og húsbyggingum sem kyndir aftur undir verðbólgubálið. Þannig kyndir ríkið undir þenslu og verðhækkunum

Það má segja að ríkisstjórnin sé með bensíngjöfina í botni meðan Seðlabankinn stendur á bremsunni með hækkun vaxta. Þannig er bankinn að reyna að draga úr þenslunni sem ríkið er að búa til.

Það er furðulegt að verða vitni að svona afleitri hagstjórn í okkar litla landi sem ætti að vera hægur leikur að stjórna vel en hagkerfið okkar er álíka lítið og hagkerfið í Lissabon í Portúgal eða Malmö í Svíþjóð.

Í fjórða lagi erum við með hæstu vexti á Vesturlöndum. Ríkisvaldið ber mikla ábyrgð á þessum háu vöxtum með fyrrnefndum þensluvaldandi hallarekstri. Vaxtakostnaður ríkissjóðs verður um 117 milljarðar á næsta ári og verða þeir einn af stærstu útgjaldaliðum ríkissjóðs sem er hlutfallslega eitt hæsta hlutfall á Vesturlöndum.

Hátt vaxtastig í landinu orsakast þó aðallega af veikum gjaldmiðli sem krefst mun meiri vaxtamunar en ella vegna áhættunnar sem fylgir krónunni. Meðan við notum krónuna sem gjaldmiðil munum við alltaf þurfa að greiða allt að 5 prósentustigum hærri vexti af öllum lánum til heimila, fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins sem veldur um 400 milljarða aukakostnaði á hverju ári, aðallega vegna ofangreindra álagsvaxta krónunnar – þó ekki hjá þeim um 250 fyrirtækjum sem hafa nú þegar yfirgefið krónuhagkerfið.

Þessi viðbótarkostnaður nemur um einum milljarði á dag og samsvarar því að hvert fjögurra manna heimili í landinu borgar að meðaltali um 4 milljónir á ári í kostnað, eingöngu vegna okkar „sjálfstæða“ gjaldmiðils.

Ekkert smáríki í heiminum notar eigin gjaldmiðil í dag nema Ísland enda eru þau öll búin að gera sér grein fyrir kostnaðinum. Krónan tryggir einnig að engir erlendir bankar né tryggingafélög starfa hér á landi vegna óstöðugleika gjaldmiðilsins og leiðir til þess að lífeyrissjóðir landsins búa við gjaldeyrishöft og verða þannig af mun meiri ávöxtun hlutabréfa erlendis en hér á landi síðustu árin.

Samkvæmt ofangreindu er ljóst að hagstjórn núverandi ríkisstjórnar fær falleinkunn á öllum fjórum helstu mælikvörðum árangurs í hagkerfum.

245.531.549 krónur!

Það dugar að fara inn á lánasíður bankanna til að sjá kostnaðinn sem krónan veldur.

Samkvæmt lánaútreikningi á vefsíðu Arion banka er hægt að fá 60 milljón króna lán í krónum til 25 ára með vísitölutryggingu sem þarf að greiða til baka rúmlega fjórfalt með 245.531.549 krónum.

Til að vinna fyrir þessum greiðslum þarf heimilið sem tók lánið að vinna fyrir um 400 milljónum fyrir skatta á 25 árum sem gera um 16 milljónir króna fyrir skatta að meðaltali á ári yfir lánstímann. Vissulega munu laun hækka á lánstímanum en upphæðin er hrikalega há.

Hvergi á vesturlöndum er að finna slíkar tölur um lánskostnað.

Efnahagslegur ómöguleiki.

Í rauninni er unga fólkið á Íslandi að gangast undir vistarband eins og tíðkaðist fyrr á öldum.

Stjórnvöld ættu að skammast sín fyrir þessa meðferð á ungu fólki sem er að reyna að koma þaki yfir höfuðið sem virðist vera orðinn efnahagslegur ómöguleiki fyrir stóran hóp heimila í landinu.

Húsnæði er grunn mannréttindi, þannig má líta má á þessa meðferð ungs fólks sem mannréttindabrot.

Nýleg könnun sýnir að um 21% útgjalda fólks undir fertugu eru vextir af húsnæðislánum. Þetta er staðreynd sem þekkist hvergi annars staðar á Vesturlöndum.

Ef ofangreint lán væri í evrum þyrfti sama fjölskylda að greiða til baka á 25 árum sem samsvara um 85 milljónum króna með vöxtum eða um 3,4 milljónir á ári að meðaltali sem gera um 5 milljónir á ári fyrir skatta sem er um þriðjungur af endurgreiðslubyrði krónulánsins.

Íslenska heimilið greiðir sem sagt um þrisvar sinnum meira fyrir sitt krónulán en evrópska fjölskyldan fyrir sitt evrulán.

Viðreisn vill breytingar.

Viðreisn er eini flokkurinn á Alþingi sem vill gera alvöru breytingar á hagstjórn landsins með inngöngu í ESB, upptöku evru, endurskoðun tolla á matvælum og hagræðingu í ríkisrekstri sem leiðir til lægri skatta.

Viðreisn heldur Haustþing sitt næstkomandi laugardag þar sem þessi mál verða rædd undir yfirskriftinni „Léttum róðurinn“.

Ekki veitir af því að létta heimilum, fyrirtækjum og öðrum róðurinn meðan núverandi ríkisstjórn vinnur að því stöðugt að þyngja róðurinn. Sjá nánar um haustþingið á www.vidreisn,is

Höfundur er varaþingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorgerður Katrín: Afsölum ekki fullveldinu heldur beitum því til að styrkja okkur í samstarfi við aðrar þjóðir

Þorgerður Katrín: Afsölum ekki fullveldinu heldur beitum því til að styrkja okkur í samstarfi við aðrar þjóðir
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ekki sátt um nýtt merki Pírata í Kópavogi – Mögulega brot á höfundarrétti Kópavogsbæjar

Ekki sátt um nýtt merki Pírata í Kópavogi – Mögulega brot á höfundarrétti Kópavogsbæjar