Úkraínumenn hafa óspart beitt sprengjudrónum gegn rússneskum hermönnum sem komið hafa inn í landið í stríðinu. Þannig hefur til dæmis handsprengjum verið varpað úr lofti með skelfilegum afleiðingum fyrir umrædda hermenn sem örkumlast og deyja, enda fjarri mannabyggðum og langt í læknisaðstoð.
Myndbandið hér að neðan var tekið af liðsmönnum úkraínska K-2 herfylkisins en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvar eða hvenær það var tekið. Í umfjöllun Mail Online kemur fram að það hafi að líkindum verið tekið nýlega.
Úkraínskir hermenn varpa sprengjum úr drónanum í átt að hermanninum en honum tekst naumlega að komast undan. Maðurinn sést biðjast vægðar, enda slasaður, þreyttur og þyrstur, og fyrr en varir mætir dróninn aftur með vatnsbrúsa og miða með leiðbeiningum um hvert hermaðurinn eigi að fara til að komast í öruggt skjól.
Hermaðurinn rússneski er augljóslega þakklátur og endar myndbandið þannig að tveir úkraínskir hermenn leiða hann í burtu. Ekki er vitað um afdrif hermannsins.
Í umfjöllun Mail Online kemur fram að opinber birting myndbandsins sé líklega liður í að reyna að fá fólk til að ganga til liðs við K-2 herfylkið. K-2 herfylkið, eins og aðrar deildir úkraínska hersins, þurfa nauðsynlega á meiri mannafla að halda í stríðinu gegn Rússum.
Myndbandið hér að neðan er frá breska blaðinu The Sun en hafa ber í huga að það getur valdið óhug hjá sumum.