fbpx
Fimmtudagur 26.september 2024
Fréttir

Björn sár og reiður út í RÚV vegna fréttar um andlát Benedikts

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 24. september 2024 15:11

Björn Bjarnason (t.v.) og Benedikt Sveinsson (t.h.) sem lést nýlega.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Bjarnason fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins eys úr skálum reiði sinnar í daglegum pistli á vef sínum vegna frétta RÚV af nýlegu andláti Benedikts Sveinssonar athafnamanns og lögmanns en faðir Benedikts og faðir Björns voru bræður. Er Björn sérstaklega ósáttur við að í frétt RÚV um andlát Benedikts hafi verið vísað á ákveðinn hátt til tiltekinna mála tengdum Benedikt sem upp hafa komið á undanförnum árum og reyndust syni hans Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra erfiður ljár í þúfu á hans stjórnmálaferli.

Byggir Björn pistill sinn aðallega á bloggfærslu Páls Vilhjálmssonar sem birtir tölvupóst sem Páll fullyrðir að fyrrverandi starfsmaður RÚV hafi sent til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra til að kvarta undan fréttaflutningnum. Páll nafngreinir ekki þennan fyrrverandi starfsmann en segir hann hafa í kvörtunarbréfi sínu sagt fréttaflutninginn skammarlegan. Í tilvitnun Páls í umrætt bréf segir meðal annars:

„Í morgunfréttatíma Ríkisútvarpsins framangreindan dag var greint frá andláti Benedikts á skýran og hlutlægan hátt [hér er átt við leiðrétta veffrétt, innsk. pv]. Í hádegisfréttum sama dag var á hinn bóginn talin ástæða til þess að bæta um betur og greina því til viðbótar sérstaklega frá því og engu öðru að hinn látni hafi haft óbein áhrif á stjórnmálin með því að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka, sem Alþingi fól syni hans að selja, og að skrifa upp á meðmæli með umsókn dæmds kynferðisafbrotamanns um uppreist æru. Hvernig má það vera að Ríkisútvarpið skuli nú á tímum, þegar menn geta leitað sér æðri menntunar á sviði fréttamennsku, hafa á að skipa þvílíkum starfskrafti, sem hefur þetta eitt fram að færa frá eigin brjósti, þegar greint er frá andláti sómakærs manns á níræðisaldri sem hefur æði margt af mörkum lagt í þjóðarþágu á starfsævi sinni.“

Breytingar

Bæði Björn og Páll gera mikið úr því að umræddri frétt hafi verið breytt í vefútgáfu eftir fjölda kvartana. Í hádegisfréttum RÚV þann 19. september var meðal annars sagt í andlátsfréttinni um Benedikt:

„Hann hafði einnig óbein áhrif á stjórnmálin þar sem eitt barna hans er Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Bjarni sagði af sér embætti fjármálaráðherra í fyrra eftir niðurstöðu umboðsmanns Alþingis þess efnis að hann hefði verið vanhæfur við söluna á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka. Það var vegna þess að faðir Bjarna var meðal kaupenda. Einnig sprengdi Björt framtíð ríkisstjórn undir forystu Bjarna 2017. Það var vegna trúnaðarbrests sem þeim fannst hafa orðið þegar dómsmálaráðherra upplýsti forsætisráðherra en engan annan um að faðir hans hefði skrifað meðmæli með umsókn dæmds kynferðisbrotamanns um uppreist æru.“

Í vefútgáfu fréttarinnar segir hins vegar um þessi mál:

„Benedikt hafði mikil óbein áhrif á stjórnmál síðasta áratug. Þar bar hæst þegar ríkisstjórn Bjarna, sonar hans, sprakk á haustdögum 2017 innan við ári eftir að hún var mynduð. Forysta Bjartrar framtíðar, sem skipaði þá stjórn ásamt Sjálfstæðisflokki og Viðreisn, kenndi trúnaðarbresti um. Það var eftir að í ljós kom að Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hafði greint Bjarna, þáverandi forsætisráðherra, frá því að Benedikt faðir hans hefði skrifað meðmæli með beiðni manns um uppreist æru.

Í fyrrahaust sagði Bjarni af sér embætti fjármálaráðherra vegna niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um að hann hefði verið vanhæfur við söluna á hlutabréfum ríkissjóðs í Íslandsbanka. Það var vegna þess að Benedikt faðir hans var meðal kaupenda.“

Tekið er sérstaklega fram í lok vefútgáfu fréttarinnar:

Fréttin var uppfærð með ítarlegri upplýsingum um viðskipti og óbein áhrif Benedikts.

Lítilvæg

Björn segir í sínum pistli að allt of mikið sé gert úr þessum málum með því að rifja þau upp vegna andláts Benedikts:

„Hlustendur voru í tilefni andláts Benedikts minntir á mál sem fréttastofunni voru einstaklega kær á sínum tíma: (1) Að Benedikt skrifaði upp á meðmæli með umsókn dæmds kynferðisafbrotamanns um uppreist æru eftir að maðurinn hafði tekið út refsingu sína. Var í raun um hreint formsatriði að ræða sem var blásið upp á þann hátt að til stjórnarslita kom. Stjórnarslitaflokkurinn varð síðan að engu. (2) Kaup á smáræði í Íslandsbanka í nafni Benedikts í útboði samkvæmt reglum alþingis.

Þetta urðu pólitísk stórmál án þess að til þess væri annað tilefni en að koma Bjarna, syni Benedikts, í vanda vegna ráðherraembætta sem hann gegndi.“

Ný viðmið

Björn vitnar í bloggfærslu Páls sem birtir tölvupóst sem hann segir vera frá Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra. Þar kemur fram að fréttinni hafi verið breytt í vefútgáfu vegna athugasemda og að framvegis verði viðhöfð ákveðin viðmið hjá RÚV við gerð frétta um andlát:

„Fréttastofan hefur fengið þónokkrar athugasemdir og kvartanir út af efnistökum og framsetningu umræddrar fréttar. Yfir þær athugasemdir hefur verið farið og texti í veffrétt var lagfærður í kjölfarið. Þá hefur fréttastjóri ákveðið að bregðast við framangreindri gagnrýni með því að setja saman formleg viðmið um ritun og birtingu andlátsfrétta, efnistök þeirra og framsetningu.“

Fjölskyldan ósátt

Björn er í pistli sínum þó ekki fyllilega sáttur við þessi orð útvarpsstjórans:

„Án þess að biðjast afsökunar viðurkennir útvarpsstjóri að fréttamenn hafi haft frjálsræði til að segja það sem þeim datt í hug við gerð andlátsfrétta en nú verði sett „formleg viðmið“ við ritun þeirra. Við sem þekktum Benedikt vitum að þar fór vinsæll, grandvar maður, mannasættir sem vildi öllum vel en var fastur fyrir og fylginn sér þegar við átti.“

Björn og Benedikt voru eins og áður sagði náfrændur en samkvæmt heimildum DV er Björn ekki eini meðlimur fjölskyldu Benedikts sem er ósáttur við þessa upprifjun RÚV á málum honum tengdum sem höfðu þessi áhrif á stjórnmálaferil Bjarna sonar hans.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Drengurinn sem grunaður er um hnífstunguárásina á menningarnótt áfram í gæsluvarðhaldi

Drengurinn sem grunaður er um hnífstunguárásina á menningarnótt áfram í gæsluvarðhaldi
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Vinsælasti borgarfulltrúinn ætlar á þing

Vinsælasti borgarfulltrúinn ætlar á þing
Fréttir
Í gær

Tveir Íslendingar sagðir hafa svikið rúmlega hálfa milljón Bandaríkjadala út úr fyrirtæki í San Francisco

Tveir Íslendingar sagðir hafa svikið rúmlega hálfa milljón Bandaríkjadala út úr fyrirtæki í San Francisco
Fréttir
Í gær

Maðurinn sem lést í Hlauptungufossi var frá Katar

Maðurinn sem lést í Hlauptungufossi var frá Katar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Í fyrsta skiptið í mínu lífi var ég meðhöndlaður eins og hundur“

„Í fyrsta skiptið í mínu lífi var ég meðhöndlaður eins og hundur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dópsali með fulla vasa af peningum sagðist hafa verið að selja vændi

Dópsali með fulla vasa af peningum sagðist hafa verið að selja vændi