Bresk kona á fimmtugsaldri sem var í hjólastól týndist og fannst látin tveimur vikum síðar undir ruslapokum í garði. Karlmaður var handtekinn en síðar sleppt þar sem rannsókn leiddi ekki í ljós að ofbeldi hefði verið beitt. Hann setti konuna hins vegar í hauginn.
Breska blaðið The Sun greinir frá þessu eftir að rannsóknargögn í málinu voru opinberuð.
Konan hét Kelly Louise Randall, var 45 ára gömul og þriggja barna móðir búsett í borginni Swansea í Wales. Randall var í hjólastól eftir að fæturnir höfðu verið fjarlægðir með aðgerð. Hún sást síðast lifandi 3. maí árið 2022 og tveimur dögum síðar var auglýst eftir henni.
Ekkert spurðist til Randall í tvær vikur en þá barst lögreglu spurnir af því að hjólastóll hefði sést fyrir utan íbúð í tilteknu hverfi borgarinnar. Eigandi hússins hleypti lögreglunni inn og þá fannst hjólastóll í einu svefnherberginu. Blóðslettur fundust einnig á rúminu, dýnunni og sængurfötunum. Randall fannst hins vegar sjálf ekki inni í húsinu.
Stór ruslahaugur í bakgarði hússins fangaði athygli lögreglunnar og þegar að var gáð sáust föt, skór og það sem leit út fyrir að vera handleggur í haugnum. Við nánari athugun kom lík Randall í ljós. Var eigandi hússins, Alfred Millman, handtekinn á staðnum.
Seinna var Millman hins vegar sleppt þegar rannsókn sýndi að ekki væru líkur á að Randall hefði verið myrt. Hins vegar var heldur ekki hægt að sýna fram á að dauði hennar hefði verið af náttúrulegum orsökum. Ekki var hægt að sýna fram á með óyggjandi hætti hvað hafði gerst. Millman hafði hins vegar fært lík hennar til með reipi og þvottasnúru.
„Hún kom stundum og fékk sér te og þreif fyrir mig,“ sagði Millman í yfirheyrslu lögreglunnar. Hann sagðist hafa fundið líkið undir sænginni þegar hann var að leita að sígarettubréfum. „Hún lá á hliðinni. Andlitið á henni var fjólublátt. Ég reyndi að þrífa andlitið. Ég vissi að hún væri dáin þar sem hún var svo köld. Ég missti stjórnina. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ég setti hana út fyrir þar sem ruslið var. Ég var hræddur. Ég hefði átt að hringja á lögregluna. En ég missti stjórnina. Ég hafði ekkert að gera með dauða hennar. Ég vissi að hún átti í fíkniefnavanda.“
Fram kom að Randall hafði glímt við eiturlyfjafíkn og að hún hefði verið að nota lyf þegar hún lést. Einnig hafði hún glímt við þunglyndi og upp höfðu komið tilvik þar sem hún hafði skaðað sig sjálfa. Maki hennar til 25 ára vitnaði um að þau hefðu bæði notað heróín og valíum.
Daginn sem Randall hvarf hafði verið farið með hana á spítala eftir að hún féll úr hjólastólnum sínum. Hún var í mjög slæmu ásigkomulagi andlega og talaði um að fleygja sér úr stólnum í veg fyrir bíla.
Réttarmeinafræðingur gat ekki sagt nákvæmlega hvaða dag Randall lést. Það hefði getað verið einhvern tímann á tímabilinu 3. til 16 maí. Hann fann engin brot á höfuðkúpunni eða merki um heilablóðfall eða hjartaáfall.
Í blóðinu fannst áfengi, morfín, amfetamín, kannabis og tvö önnur fíkniefni. Gat réttarmeinafræðingurinn ekki útilokað að þessi kokteill af efnum hefði haft sitt að segja um andlátið þó að ekki væri beinlínis hægt að fullyrða það. Ekkert benti hins vegar til þess að önnur manneskja hefði valdið andlátinu.