Fékk yfir sig holskeflu af fúkyrðum – Segir þá freku ráða ríkjum í athugasemdakerfum
„Yfirleitt ákvað fólk að rangtúlka það sem maður sagði. Hvernig ætlar þú að vinna umræður við fólk sem ákveður að kynna sér ekkert það sem maður erað tala um? Það er ekki hægt,“ segir Logi Bergmann Eiðsson sjónvarpsmaður en hann segir „Þá freku“ ráða ríkjum í athugasemdakerfum vefmiðla. Sjálfur varð hann í tvígang skotmark í ansi óvæginni umræðu í athugasemdakerfum, sem og á samfélagsmiðlum en þá hafði hann tjáð sig opinberlega um hitamál í samfélaginu.
„Það var allt frá því að ég væri fáviti og vondur og vildi frekar drepa Íslendinga og að hjálpa útlendingum,“ segir Logi í samtali við Kastljós en hann tjáði sig í tvígang á skömmum tíma. Í fyrra skiptið tjáði hann sig í sjónvarpsþætti Gísla Marteins Baldurssonar um tvær íslenskar stúlkur sem sátu í fangelsi í Tékklandi, og hvernig fólk leyfði sér að tala um þær. Um það atvik sagði Logi:
„Þetta er svo dapurlegt. Ég las þetta á netinu og það sem mér fannst jafnvel enn dapurlegra var að lesa komment við þessar fréttir. Þetta súra ógeð sem vellur fram í kommentakerfinu t.d. hjá DV. Sem er bara svo viðbjóðslegt, svo skilningslaust og skrifað af svo miklum fávitum að manni verður bara óglatt.“
Í annað skiptið tjáði hann sig um flóttamannamál í útvarpsþætti á Bylgjunni.
„Ég sagði að ég teldi að þeir sem vildu ekki hjálpa flóttamönnum væru vont fólk, og ég stend við það. Segist eiginlega ekki skilja þá sem vilja ekki hjálpa flóttamönnum, hafandi verið í flóttamannabúðum, hafandi séð flóttamenn og upplifað svona hluti, þá skil ég ekki þennan veruleika að láta svona,“ segir hann en í kjölfar ummæla hans á sínum tíma létu fýkyrðin frá netverjum ekki á sér standa og fékk Logi að heyra ýmislegt misfallegt á borð við:
„Þeir sem öskra hæst, þeir vinna,“ segir Logi jafnframt og vísar í athugasemdakerfi vefmiðla. „Og smám saman, þegar þeir hafa öskrað hátt rosalega lengi, fólk er hætt að mótmæla þeim þá komast þeir að þeirri niðurstöðu að fyrst að enginn er að mótmæla þeim, þá hljóti þeir að hafa rétt fyrir sér.“