Valgerður fyrsti íslenski hnefaleikarinn til að berjast í UFC
Ritstjórn DV Fimmtudaginn 19. september 2024 17:30
Valgerður Guðsteinsdóttir er klár í slaginn. Mynd UFC/360 Boxing Promotions
Kristín Elísabet Gunnarsdóttir annar þjálfari Valgerðar skrifar frá Írlandi
Valgerður Guðsteinsdóttir, atvinnuhnefaleikari, mun stíga inn í hringinn á morgun föstudaginn 20. september og verður þar með fyrsti íslenski hnefaleikarinn til þess að berjast á vegum 360 Boxing Promotions og UCF, stærsta bardagasambands veraldar í blönduðum bardagalistum. Bardaginn fer fram í Dublin í Írlandi en andstæðingur Valgerðar er Shauna O´Keefe sem kölluð er írskari hamarinn (e. The Irish Hammer). Shauna O’keefe. Óhætt er að fullyrða að um sé að ræða stærsta vettvang sem íslenskur hnefaleikari í sögu Íslands hefur keppt á en um er að ræða 13 atvinnubardaga Valgerðar. Undirbúningurinn hefur gengið afar vel, hún mætir því í hringinn í sínu allra besta formi, andlega og líkamlega.
Valgerður er í hópi öflugra hnefaleikara sem mun láta ljós sitt skína þetta kvöld og er mikil eftirvænting fyrir kvöldinu. Baráttan hefst kl 16:30 á íslenskum tíma á morgun og verður blásið til áhorfspartý á vegum Mjölnirs og Fimmtu lotunnar í MiniGarðinum í Skútvogi til að horfa á bardagann, þar sem allir eru velkomnir. Bardaginn hjá Valgerði er númer tvö í röðinni og því mikilvægt að mæta rúmlega fyrir, áður en dagskráin hefst, sérstaklega ef að fyrsti bardagi endar snemma með rothöggi. Þeir sem komast ekki á MiniGarðinn geta keypt streymi á bardagann í gegnum UFCfightpass.com.