Það vakti athygli í síðustu viku þegar Efling greip til aðgerða við veitingastaðinn Ítalíu við Frakkastíg. Voru ítrekuð og endurtekin brot veitingamannsins Elvars Ingimarssonar gegn starfsfólki sögð ástæðan.
Birgir vísar í umfjöllun Morgunblaðsins þar sem haft var eftir Sólveigu Önnu að hátt í 40 félagsmenn Eflingar hefðu leitað til stéttarfélagsins vegna kjarasamningsbrota og launaþjófnaðar. Sagði Sólveig Anna vandamálið stórt og kveðst hann taka undir með henni að enginn eigi að komast upp með þjófnað, hvort sem það er að hlunnfara launamenn eða annan þjófnað.
Sólveig segir Elvar ljúga – Skuldi skjólstæðingum Eflingar tvöfalt meira en hann viðurkennir
Það sem vakti aftur á móti athygli Birgis voru orð Sólveigar Önnu þess efnis að stjórnmálastéttin meðal annars hefði ekki sýnt neinn áhuga á að gera launaþjófnað refsiverðan. Birgir segir að hér verði hann að staldra við og upplýsa að Sólveig Anna fer með hrein ósannindi.
Birgir rifjar upp í grein sinni að í október 2020 hafi hann mælt fyrir frumvarpi á Alþingi um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í greinargerð frumvarpsins sagði meðal annars að markmið þess væri að sporna við kjarasamningsbrotum á vinnumarkaði og lagt til að Vinnumálastofnun yrði veitt heimild til að leggja stjórnvaldssekt á atvinnurekanda teljist hann vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi hafa greitt launamanni laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði. Þá var kveðið á um sektarákvæði í frumvarpinu upp á allt að fimm milljónir króna.
„Það er augljóslega alrangt hjá formanni Eflingar að stjórnmálamenn hafi ekki sýnt áhuga á að gera launaþjófnað refsiverðan. Það sem er hins vegar rétt og satt í málinu er fullkomið áhugaleysi formanns Eflingar á frumvarpi mínu,“ segir Birgir og bætir við að þegar hann lauk vinnu við frumvarpið hafi hann gert ítrekaðar tilraunir til að ná í formanninn, til þess að bera frumvarpið undir hana og fá ábendingar og athugasemdir.
„Ég sendi henni tölvupóst og hringdi tvisvar á skrifstofu Eflingar til að ná tali af henni. Ég gat þess að ég vildi kynna henni frumvarpið áður en ég legði það fram og bað um að þeim skilaboðum yrði komið á framfæri við hana. Allt kom fyrir ekki, formaðurinn svaraði ekki tölvupósti og hringdi aldrei til baka. Eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi sýndi Bylgjan því áhuga og kynnti ég frumvarpið á þeim vettvangi. Viðmælendur mínir á Bylgjunni sýndu áhugaleysi formanns Eflingar Sólveigar Önnu Jónsdóttur á frumvarpinu áhuga og það hafa fleiri gert. Sýnist sumum að það sé ekki sama hvaðan gott kemur.“