Eins og greint var frá í gær er faðir ungrar stúlku í haldi grunaður um að hafa banað henni. Maðurinn var handtekinn á sunnudag á Krýsuvíkursvæðinu eftir að hann tilkynnti að hann hefði banað stúlkunni. Tólf manndrápsmál hafa komið til kasta lögreglu í ellefu málum frá 2023 og 39 manndrápsmál hafa komið upp frá árinu 2010, að því er segir í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.
Helgi segir í viðtalinu að málin sem komið hafa upp að undanförnu séu að sumu leyti ólík, það er að segja hverjir eiga í hlut.
„Við erum að horfa á föður og dóttur og svo unglinga. Þetta eru mál sem eru ekki alveg af sama meiði en þau raðast svona saman einhvern veginn.“ Hann segir manndrápsmál óalgeng þar sem feður hafa banað börnum sínum. „Ég man ekki eftir því í fljótu bragði að faðir hafi banað dóttur sinni hér á landi. Ég man hins vegar eftir málum mæðra sem hafa drepið börn.“
Helgi segir manndrápsmál tiltölulega fátíð hér á landi og í tilfelli fámennra þjóða megi búast við sveiflum. „Ef við skoðum manndráp frá aldamótum þá voru um það bil tvö manndráp á ári að jafnaði. Nú virðumst við vera að sjá aðeins fleiri mál á síðustu fjórum árum en þá þurfum við að hafa mannfjöldaaukninguna í huga og eðli þeirra mála sem koma upp,“ segir hann við Morgunblaðið þar sem nánar er fjallað um málið.