Mikael Nikulásson fyrrum þjálfari KFA og sérfræðingur Þungavigtarinnar slær því fram í nýjasta þætti þeirra félaga að KR ætli að losa sig við Alex Þór Hauksson eftir tímabilið.
Alex Þór kom heim úr atvinnumennsku fyrir tímabilið og er einn launahæsti leikmaður Bestu deildarinnar.
Alex eins og fleiri leikmenn KR hafa ekki fundið taktinn í sumar og heldur Mikael því fram að Alex verði sparkað út eftir tímabilið.
„Ég hef heyrt að hann verði ekki áfram í KR, ég veit ekki hvort það sé búið að tilkynna honum það,“ sagði Mikael í Þungavigtinni
„Hann spilar ekki Óskars fótboltann, hvaða leikmaður þarna spilar hann? Þú þarft að vinna og vinna hratt, þarna þarf að vinna extra hratt.“
Mikael efast svo um KR sem hefur tapað síðustu tveimur leikjum illa og hvort Óskar Hrafn Þorvaldsson þurfi að breyta leikstíl sínum.
„Óskar vill spila sinn bolta og setja sinn svip, af hverju fer hann ekki niður á móti Víking eins og Pálmi í fyrri leiknum þar sem liðin gerðu jafntefli.“