Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa orðið tíu ára dóttur sinni að bana. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu, segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi verið samvinnufús, ekki leiki grunur um að sakborningar séu fleiri og að maðurinn tengist ekki skipulagðri glæpastarfsemi.
Ekki leiki heldur grunur um að maðurinn hafi ætlað að hylma yfir brot sitt og hafði maðurinn sjálfur samband við lögreglu. Grímur vildi ekki tjá sig að svo stöddu um hvort lögregla hafi lagt hald á vopn í tengslum við málið en hann tók fram að sem stendur leiki ekki grunur um að maðurinn hafi verið undir áhrifum fíkniefna.
Maðurinn hafði samband við lögreglu í laust fyrir klukkan sex í gærkvöldi og reyndist staddur í hrauni við Vatnsskarðsnámi við Krýsuvíkurveg. Dóttir hans fannst skammt frá og voru endurlífgunartilraunir sem báru því miður ekki árangur og stúlkan úrskurðuð látin á vettvangi.
Faðirinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til þriðjudagsins 24. september að kröfu lögreglu í þágu rannsóknar málsins.