Þingmaður repúblikana, Marjorie Taylor Greene, tók þátt í að dreifa samsæriskenningu um kappræður forsetaframbjóðendanna. Hún hefur nú gengist við því að hafa dreift falsfrétt.
Samsæriskenningin kom frá notanda á miðlinum X [áður Twitter] sem meðal annars segist hafa tekið þátt í áhlaupinu á bandaríska þinghúsið þann 6. janúar 2021. Ekki liggur fyrir hver er raunverulega á bak við aðganginn en líklegt þykir að viðkomandi tísti undir dulnefni. Þessi notandi hélt því fram að uppljóstrari frá ABC fréttastofunni hefði upplýst að Kamala Harris hefði fengið sendar spurningar fyrir kappræðurnar og að henni hafi verið lofað að harðar yrði gengið að Donald Trump en henni. Þessi uppljóstrari átti að hafa lofað sönnunargögnum sem áttu að birtast um helgina. Áður en það gerðist fór þó sú saga að ganga að uppljóstrarinn hefði látið lífið í dularfullu slysi.
Greene deildi kenningunni og tísti um sviplegt andlát meints uppljóstrara. Fjórum klukkustundum síðar leiðrétti Greene mál sitt.
„Þessi frétt virðist vera uppspuni og ég er ánægð að heyra það,“ sagði Greene en gekkst þó aðeins við því að falsfréttin varðaði andlát meints uppljóstrara en hún heldur því þó áfram fram að uppljóstrarinn sé raunverulegur. „Við þurfum alvöru rannsókn á frásögn uppljóstrarans um að Kamala Harris hafi fengið sendar spurningarnar áður en kappræðurnar fóru fram á ABC fréttarásinni.“