fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fréttir

„Við erum ítrekað að lenda í því að það sé verið að ráðast á hundinn okkar og það er satt að segja orðið gjörsamlega óþolandi“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 16. september 2024 19:59

Mynd/Instagram @helgiomarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ljósmyndarinn, áhrifavaldurinn og hlaðvarpsstjórnandinn Helgi Ómarsson biðlar til hundaeigenda að sleppa ekki taumnum í Paradísardal ef hundurinn er árásargjarn eða er með ögrandi framkomu við aðra hunda.

Paradísardalur er vinsælt svæði meðal hundaeigenda rétt hjá Rauðavatni. Helgi fer þangað reglulega með hundinn sinn Noel en er orðinn þreyttur á lausagöngu árásargjarnra hunda.

DV ræddi við Helga en hann vakti fyrst athygli á málinu í vinsæla Facebook-hópnum Hundasamfélagið.

„Getum við öll hér sameinast og verið sammála um það að eigendur hunda sem eiga það til að ráðast á aðra hunda eða sýna árásarhneigð (e. aggression) í garð hunda sleppa því að hleypa hundinum sínum lausum í Paradísardalinn? Við erum ítrekað að lenda í því að það sé verið að ráðast á hundinn okkar og það er satt að segja orðið gjörsamlega óþolandi. Síðast í dag þar sem Sheffer réðst á hann og það er ekki hundur sem hvorki aðrir hundar eða fólk að reyna verja hundana sína vilja lenda í.“

Sammála og segja stöðuna oft erfiða

Aðrir meðlimir tóku undir með Helga, meðal annars eigendur hunda sem hafa sýnt slíka hegðun.

„Mín er svona erfið og aggressív, boxer. Eitthvað sem jókst með aldrinum og eftir að hún varð sjálf fyrir árás. Ég fer aldrei með hana í Paradísardal né Geirsnef. Ef svo kæmi til væri það í taum og bara til að ganga í gegn og fara slóðana. Ef ég sleppi henni lausri þá er það bara á Hólmsheiði og gæti þess að enginn sé nálægt, fer svo beint í taum ef annar hundur birtist. Ég tek enga sénsa með hana,“ sagði einn netverji.

Ein kona segir að það sé mikilvægt að eigendur æfi innkall hjá hundunum sínum áður en þeir sleppa þeim lausum.

Með tvö sár eftir árás

Fleiri hafa skrifað við færsluna og segjast hafa svipaða sögu að segja. „Hef lent í þessu líka. Kom einn á meiri ferðinni og réðst á eldri hundinn minn. Mjög ógnvekjandi og ég skil ekki að fólk sleppi sínum hundi lausum ef hann hagar sér svona við aðra hunda,“ sagði einn hópmeðlimur.

„Algjörlega sammála. Tíkin mín, sem er alltaf vingjarnleg og vill bara leika, er með tvö sár á hliðinni eftir árás frá brúnum labrador. Sá var þarna með konu sem var með 3 hunda,“ sagði annar.

Einn netverji sagði suma eigendur ekki bregðast nógu vel við. „Mikið er ég sammála. Fór þarna einusinni og fer ekki aftur. Maður labbandi með tvo labrador sem skipti sér ekkert að því hvað þeir voru að gera. Eltu minn maltese þannig að minn hundur meig bókstaflega á sig. En maðurinn bara labbaði – kallaði ekkert á hundana sína þrátt fyrir að sjá langar leiðir að þeir voru að hrella minn hund. Náði sem betur fer mínum hundi þannig þeir létu sig hverfa. Það er allt í lagi að fylgjast með og stoppa þessa hegðun hjá sínum hundum ÁÐUR en þeir ráðast á aðra hunda.“

Noel, hundur Helga Ómars.

„Það þarf að vera öruggt svæði fyrir hundana okkar“

Í samtali við DV segir Helgi ábyrgðina liggja hjá eigendum.

„Ég vildi vera skýr í þessum skrifum mínum. Á sama tíma og ég get auðvitað ímyndað mér að það sé krefjandi og leiðinlegt að vera eigandi hunds sem ræðst á annan hund í lausagöngu þá finnst mér málið nokkuð einfalt. Við, eigendur berum ábyrgð á þessum dýrum, og eigum það sameiginlegt að elska þau af öllu hjarta. En það þarf að vera öruggt svæði fyrir hundana okkar og Paradísardalurinn á að vera það,“ segir hann.

„Það er eitt að svekkja sig á því að árás á hundinn sinn hafi átt sér stað, en það er annað að upplifa eins og eigendunum sé sama eða taka almennt ekki ábyrgð á hundunum sínum. Svo ég tala ekki um það að hundurinn sem ræðst á, þetta er hvorki hollt né gott fyrir hann, hvað þá eigendur sem þurfa að nota lífs og sálarkrafta að rífa þá í sundur.“

„Ekki gott fyrir hvoruga þeirra“

Helgi og unnusti hans, Pétur Sveinsson, hafa þurft að bjarga Noel úr slíkum aðstæðum mörgum sinnum.

„Ég og maðurinn minn höfum alltof oft þurft að halda á hundinum okkar upp yfirhöfuð til að halda honum frá hundi, og það er bara ekki í lagi. Við berum ábyrgð á hundunum okkar, og með því að setja þau í þessar aðstæður, sama hvor megin þeir eru við borðið á árás, þá er þetta ekki gott fyrir hvoruga þeirra, og ekki eigendurna heldur,“ segir hann.

Helgi hvetur hundaeigendur til að hjálpast að. „Gerum Paradísardalinn öruggan stað fyrir hundana okkar í sameiningu, það er það eina sem ég bið um”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilja banna innflutning frá Temu og Shein

Vilja banna innflutning frá Temu og Shein
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óánægjualda rís vegna umdeildra kaupa og áskrifendur flýja- „Það er fráleitt að kaupa sorpritið Mannlíf til þess að Reynir Traustason megi eiga áhyggjulaust ævikvöld“

Óánægjualda rís vegna umdeildra kaupa og áskrifendur flýja- „Það er fráleitt að kaupa sorpritið Mannlíf til þess að Reynir Traustason megi eiga áhyggjulaust ævikvöld“