Hannes átti leið um Keflavíkurflugvöll í morgun þar sem fjölmenn mótmæli fóru fram vegna yfirvofandi brottvísunar hins ellefu ára gamla Yazans Tamimi og fjölskyldu hans.
Yazan glímir við Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóm en hann var sofandi í Rjóðrinu, hjúkrunar- og endurhæfingardeild Landspítala fyrir langveik börn, þegar lögreglumenn komu í gærkvöldi og vöktu hann og tilkynntu að komið væri að því að senda hann úr landi.
Yazan litli vakinn í Rjóðrinu – Verður sendur úr landi í dag
Albert Lúðvígsson, lögmaður fjölskyldunnar, sagði í samtali við mbl.is að framkvæmdin væri harðneskjuleg og vinnubrögð lögreglu forkastanleg. Fleiri eru þeirri skoðunar og kom fjöldi fólks saman á Keflavíkurflugvelli í morgun þar sem yfirvofandi brottvísun var mótmælt.
Hannes er ekki sáttur við að mótmælendur hafi fengið að mótmæla inni í flugstöðinni og segist hann í færslu á Facebook-síðu sinni hafa verið áreittur.
„Ég átti leið um flugstöðina í morgun. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum vanrækir þá skyldu sína að halda uppi góðri allsherjarreglu, því að hann lét óátalið, að fólkið tróð sér inn í flugstöðina og áreitti fólk (þar á meðal mig), sem var í mesta sakleysi að innrita sig í flug. Þetta fólk mátti mín vegna mótmæla, en ekki inni í flugstöðinni, heldur fyrir utan hana. Það er með ólíkindum, hvernig þessi óþjóðalýður veður uppi.ׅ“