Daniel Amartey virðist hafa reynt allt til að forðast það að semja við annað félag í sumarglugganum sem er nú lokaður í langflestum löndum.
Amartey er fyrrum leikmaður Leicester og vann ensku úrvalsdeildina með liðinu árið 2016 en hann er í dag hjá Besiktas.
Nokkur lið vildu fá Amartey fyrir lok sumargluggans en hann sýndi lítinn áhuga og vildi aðeins fara aftur til Englands eða þá til Þýskalands.
Huseyin Yucel, talsmaður Besiktas, hefur tjáð sig um málið en hann átti í raun erfitt með að útskýra hvað nákvæmlega gekk á undir lok gluggans.
Glugginn í Sádi Arabíu og í Tyrklandi lokaði seinna en glugginn annars staðar í Evrópu – eitthvað sem Amartey áttaði sig einfaldlega ekki á.
,,Amartey er undarlegur náungi. Við vorum búnir að ná samningum við lið í Sádi Arabíu en hann mætti ekki í flugið,“ sagði Yucel.
,,Við höfðum náð samkomulagi við Eyupspor eftir það en hann náði að flýja í gegnum bakdyrnar.“
,,Hann sagði við okkur að hann myndi fara til Englands eða Þýskalands,“ bætti Yucel og segir einnig að Amartey hafi látið eins og hann hafi ekki vitað að glugginn í Tyrklandi myndi loka seinna en annars staðar.