Rúta gjöreyðilagðist í eldsvoða í Tungudal í Skutulsfirði í dag. RÚV greindi frá, sem og Lögreglan á Vestfjörðum.
Allir farþegarnir, sem voru tæplega sextíu, komust úr úr rútunni heilir á húfi og voru fluttir af vettvangi með annarri rútu. Atvikið átti sér stað síðdegis í dag, skömmu eftir að rútan kom út úr Vestfjarðargöngunum. Í frétt mbl.is um málið er velt vöngum yfir því hvað hefði gerst ef kviknaði hefði í rútunni inni í göngunum. „Þetta byrjar á að hreinsa út allt súrefni og svo skilar það þessum reyk til baka þannig að þetta fólk sem var í rútunni og aðrir vegfarendur, þar á meðal ég, væru allir í verulegri hættu ef að þetta hefði gerst ekki nema þá bara einni mínútu áður,“ segir sjónarvottur í viðtali við mbl.is.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður VG, kom á vettvang rútubrunans. Hún segir atvikið kalla á nauðsyn þess að tvöfalda báðar einbreiðu brautirnar sem liggja í gengum göngin. Lilja fer yfir málið á Facebook-síðu sinni:
„Gott að ekki urðu slys á fólki. Ég kom út úr göngunum stuttu eftir að slysið gerðist og var þá komin stór bílaröð hjá slysstað. Svona atburðir ættu að vekja ráðamenn til umhugsunar um hvað hefði getað gerts ef kviknað hefði í rútunni nokkrum mínutum fyrr inn í Vestfjarðargöngum sem eru einbreið að stórum hluta og mikil rútutraffic um báða einbreiðu leggina ! Það hefði orðið algört öngþveyti og erfitt að komast að slysstað til bjargar og baneitraður reykur frá eldinum. Vonandi vekur þetta ráðamenn til vitundar um nauðsyn þess að tvöfalda þessi báða leggi einbreiðu ganganna sem fyrst því þar er mikil slysahætta og gera þarf viðeigandi ráðstafanir. Hverjar eru viðbragðsáætlanir ef eldsvoði verður í umferðinni í göngunum ég vona að nú þegar sé einhver til staðar en þessi atburður kallar á mikla skoðun svo tryggja megi öryggi vegfarenda!“