fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2024
FókusKynning

Tímalausar kyrrur

Kynning

Viðtal við Pétur Gaut myndlistarmann

Ritstjórn DV
Föstudaginn 4. mars 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Næstkomandi laugardag, 5. mars mun listmálarinn Pétur Gautur opna veglega afmælissýningu í Gallerí Fold. Pétur Gautur verður fimmtugur deginum áður og fannst tilvalið að líta yfir ferilinn á þessum tímamótum, skoða það sem hann hefur verið að gera síðan hann lauk námi og leyfa sér að sækja innblástur í fyrri verk sín. Á sýningunni verða um 30 verk sem fæst hafa komið fyrir sjónir almennings áður. Ég heimsótti Pétur á vinnustofuna þar sem hann bauð mér upp á rótsterkt kaffi og spurði hann út í sýninguna.

„Hún er kannski öðruvísi þessi sýning en þær sem ég hef áður verið með, því ég er bæði að horfa fram, en líka til baka,“ útskýrir Pétur þegar ég spyr hann um efnistökin þessu sinni. „Þetta er ekki hefðbundin yfirlitssýning, reyndar verða þarna nokkrar eldri myndir en svo er ég líka að endurnýta gamlar hugmyndir og nálgast þær aftur. Eiginlega mála þær upp á nýtt. Það er líka dáldið gaman og hollt fyrir mann að sjá hvað maður var að gera fyrir tíu, tuttugu árum síðan. Auðvitað verður það aldrei eins en það á heldur ekki að vera það,“ segir hann og brosir.

Pétur bjó í Danmörku og segist fylgjast vel með myndlistarlífinu þar. Hann bendir á að sumir málarar þar eigi einhverja hugmynd sem þeir svo máli aftur og aftur og aftur. „Ég hef ekkert verið neitt sérlega duglegur við það. Ég hef reyndar alltaf verið í uppstillingunum en ég er búin að gera þær á alla mögulega vegu; allt frá súperraunsæi, yfir í það sem maður getur kallað abstrakt, þannig að ég er búinn að fara marga hringi en nú er ég bara að fara einn hringinn í viðbót, en allt öðruvísi.“

„Klikkuðu myndirnar“ fá að vera með

Pétur ætlar einnig að sýna myndir sem hann kallar „klikkuðu myndirnar“. „Þær eru svolítið villtar! Ólafía Hrönn vinkona mín var hérna með uppistand þegar ég opnaði sýninguna um jólin og hún sagði að það væri eins og börn hefðu komist í þær og krassað dáldið í þær,“ segir hann og hlær. „Þessi sýning verður öðruvísi og mér finnst það skemmtilegt. Þetta má vera svolítið flippað. Ég á afmæli og ég má þetta!“ segir Pétur og hlær.

Uppstillingin áberandi í verkum Péturs

Ég spyr hann út í uppstillinguna sem hefur verið áberandi viðfangsefni hjá honum í gegnum tíðina. Uppstillingin er klassískt viðfangsefni í listasögunni en býður þó endalaust upp á nýja nálgun.

Mynd: Johann Agust Hansen

„Ég hef stundum svarað því þannig þegar ég er spurður hvers vegna ég sé sífellt að fást við uppstillingar að það hafi byrjað þegar ég bjó í Danmörku. Ég gat ekki málað landslag því það er ekkert landslag þar og því voru hæg heimatökin,“ segir hann og brosir. „Björn Th. Björnsson kallaði uppstillingar alltaf kyrralífsmyndir sem er ákaflega fallegt orð. Ég var nemandi hans og hann sagði mér frá ýmsu sem ég hef notað í mínum myndum. Það er lítið af skálínum í mínum myndum en það lærði ég af Jóni Stefánssyni. Það eru yfirleitt alltaf bara lágréttar línur í verkunum hans og svo lóðréttar og ég hef notað þetta konsept því um leið og þú ert kominn með skálínur þá er kyrrðin farin úr myndinni. Þegar maður horfir á góða kyrralífsmynd er það svolítið eins og að fara í slökun. Síðan byrjaði ég á því í hruninu 2008 að fara í fyrsta skipti að mála skálínur enda var öll veröldin bara að hrynja. Einu skálínurnar í verkum mínum finnast þar. Þá voru borðin á hlið. Síðan er ég með eina mynd hérna fyrir ofan,“ segir hann og bendir mér á mynd fyrir aftan mig, „og það er skálína á henni en mér finnst það ekki ganga upp þannig að ég ætla að mála yfir hana. Dúkurinn er skakkur þarna en hann verður beinn á morgun þegar ég hengi upp sýninguna. Það kemur svo mikil ókyrrð og óvissa með skálínum. Ég er eins og Jón Stefánsson að þessu leyti, við erum mikið með lárréttar línur.“

Aðhyllist einfaldleikann og notar fáa en góða liti

Ég spyr Pétur um tæknina sem hann notar í verkum sínum. Hann segir mér að hann aðhyllist einfaldleikann, noti fáa liti en góða og notar oft bara einn pensil. Hann segir mér að nemendur sínir, en hann kennir fullorðnu fólki málaralist, eigi oft svakalegt úrval af bæði litum og penslum. Slíkt sé í raun algjör óþarfi svo lengi sem litirnir séu góðir og bæði efnið og verkfærin henti viðkomandi.

Pétur segist stundum mála aftur myndir á sama strigann. Þá breytir hann og bætir eða setur myndina í nýtt samhengi.

„Oft þegar maður er að vinna svona sýningar þá er þetta mikil törn og maður kemst ekki í nógu mikla fjarlægð frá málverkunum. Svo sér maður kannski myndir af sýningum nokkrum árum seinna og þá sér maður verkin í nýju ljósi. Stundum hugsar maður jafnvel: „Hvað var ég að pæla?“ Ég hef oft átt þannig móment.“

Sköpuninni fylgi hins vegar ákveðið ferli og stundum sé nauðsynlegt að fara ákveðna leið til að komast á áfangastað. Hann bendir á að því fylgi endalaus sjálfsskoðun og það geti verið þreytandi.

„Ég byrjaði til dæmis sem abstrakt málari og það var rosalega gjöfult tímabil á meðan ég var góður í því. Svo kom að því að sú tæra lind var bara uppurin. Það var soldið skrítið að finna fyrir því að ég var bara að brenna upp og ég gat ekki málað abstrakt og ég get ekki ennþá málað abstrakt eftir öll þessi ár.“

Abstrakt bakgrunnurinn er þó vel greinilegur í verkum Péturs.

Mynd: Johann Agust Hansen

„Kristján Davíðsson kenndi mér á lokaárunum í Myndlista- og handíðarskólanum og ég var strax mikill aðdáandi hans og var undir áhrifum frá honum sem er auðvitað bara eðlilegt þegar maður er bara ungur maður og kynnist svona miklum listamanni. Síðan þroskast maður bara og finnur sína leið út úr því og ég er bara nokkuð sáttur við það. En svo hef ég líka bara prófað að fara út í húsamyndir og einu sinni sýndi ég heila sýningu þar sem voru bara hús og fólk klóraði sér í hausnum og sagði: „Pétur Gautur á bara að mála uppstillingar!“ Ég seldi ekki eina einustu mynd ef ég man rétt. Síðan eru allar þessar myndir farnar en það tekur bara markaðinn alltaf einhvern tíma að átti sig á að ég er ekki einnar skúffu maður. Ég er ennþá að fá spurningar um hvenær komi fleiri húsamyndir. Það er bara á listanum að gera þær en það er svo skrítið að þegar ég var með fullt af húsamyndum þá vildi þær enginn.“

Það er eitthvert tímaleysi sem fylgir mannkyninu í þessum hversdagslegu hlutum

Pétur segir að það virðist taka fólk tvö til þrjú ár að venjast því þegar hann breyti til. „Þannig var það líka með blómamyndirnar. Þær voru ekkert vinsælar fyrst en svo fóru þær að ganga. Ég man ég byrjaði að mála blóm þegar það var hitabylgja og mig langaði að mála úti, hugsaði að það væri bara fáránlegt að vera alltaf inni að mála. En ég hef gaman af blómum – það er svo mikil litadýrð í þeim og það á vel við mig.“

Pétur segir mér að hann hafi bæði verið spurður og einnig gagnrýndur fyrir að mála ekki hluti sem tilheyri lífi nútímamannsins, t.d. kókflöskur og slíkt. Hann segir mér frá ferð sinni til Pompeii þar sem hann fékk tækifæri til að skoða líf fólks eins og það var fyrir 2000 árum síðan. „Og þá var ég að skoða þessa klassísku hluti; þarna voru uppstillingar – könnur og ávextir, skálar og glös og allt þetta sem við þekkjum í dag. Og þetta hefur ekkert breyst, þessir hlutir eru allir alveg eins í dag. Það er eitthvert tímaleysi sem fylgir mannkyninu í þessum hversdagslegu hlutum sem eru notaðir á hverjum degi og ég reyni bara að endurspegla það í verkunum. Þetta eru svona algjörlega tímalausar kyrrur.“

50 ára afmælissýning Péturs Gauts verður opnuð í Gallerí Fold laugardaginn 5. mars, kl. 15. Allir eru velkomnir á opnunina og sýninguna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 
Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
26.01.2024

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7
Kynning
23.01.2024

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea
Kynning
06.11.2023

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“