fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Dýrustu og ódýrustu svæðin á landsbyggðinni – Hveragerði dýrast en lækkanir víða á Akureyri

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 15. september 2024 10:30

Fasteignaverðið sveiflast meira á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ef frá er talið eitt hverfi á Akureyri þá er Hveragerði sá staður á landsbyggðinni þar sem fasteignaverð er hæst. Hvergi hefur fasteignaverð þó hækkað meira en í Bolungarvík.

Þetta má sjá í vefsjá matssvæða hjá Húsnæðis og mannvirkjastofnun. Það er byggt á fasteignamati. DV skoðaði hvaða svæði á landsbyggðinni eru þau dýrustu og ódýrustu og hvar breytingarnar hafa verið mestar á milli ára. Hin óformlega rannsókn byggir á fermetraverði fjölbýlishúsnæðis.

Algengast er að fermetraverðið sé hæst í stærri þéttbýliskjörnum, einkum þeim sem eru í um klukkutíma radíus frá höfuðborgarsvæðinu. Verðið er lægra í smærri þorpum, einkum þeim sem eru í mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, svo sem á Austfjörðum og Vestfjörðum. Sveiflurnar eru hins vegar miklar og munurinn talsverður, jafn vel innan sömu svæða.

Hveragerði dýrari en sum hverfi á höfuðborgarsvæðinu

Hæsta fermetraverðið utan höfuðborgarsvæðinu er í Hveragerði, 609 þúsund krónur. Það er hærra en í sumum hverfum á höfuðborgarsvæðinu og eina svæðið á landsbyggðinni þar sem verðið fer yfir 600 þúsund ef frá er talið eitt hverfi á Akureyri.

Almennt séð er fasteignaverð nokkuð hátt á Suðurlandi en í öðru sæti í landshlutanum er Selfoss, fjölmennasti bærinn. Þar er fermetraverðið 576 þúsund.

Hækkanirnar eru mun meiri á Þorlákshöfn en Hveragerði og Selfossi.

Það bæjarfélag sem er hins vegar í hvað örustum vexti, hvað fasteignaverð varðar, er hins vegar Þorlákshöfn. Fermetraverðið þar er nú 514 þúsund og hefur hækkað um 16,4 prósent á milli ára. Í Hveragerði og á Selfossi eru hækkanirnar „aðeins“ 6,8 og 5,9 prósent. Hafa ber þó í huga að þetta eru allt saman myndarlegar hækkanir miðað við höfuðborgarsvæðið.

Annar staður sem hefur vaxið mjög hratt er Vík í Mýrdal. Þar er verðið langtum lægra en í Árnessýslunni, 355 þúsund, en hækkunin er 14,7 prósent á milli ára í þessu mikla ferðamennskuþorpi. Einnig hefur vöxturinn verið mikill í Vestmannaeyjum, 9,7 prósent, og er verðið nú 414 þúsund.

Af öðrum stöðum á Suðurlandi má nefna Laugarvatn (449), Flúðir (274), Hellu (272), Hvolsvöll (353), Kirkjubæjarklaustur (268) og Höfn í Hornafirði (436). Lægsta verðið á Suðurlandi er að finna á Stokkseyri, aðeins 158 þúsund krónur og þar er líka vöxturinn lægstur, aðeins 0,4 prósent.

Njarðvík dýrari en Keflavík

Líkt og á Suðurlandi er fasteignaverð hátt á Suðurnesjum. Hæsta fermetraverðið má finna í Vogum í Vatnsleysuströnd, 560 þúsund, sem er jafn framt næst höfuðborgarsvæðinu.

Í Reykjanesbæ er verðið hærra í Njarðvík (554) en í Keflavík (528) en allra lægst er það þó á Ásbrú (445).

Grindavík hækkar þrátt fyrir hörmungar.

Þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum miklar hremmingar er fasteignaverð enn þá 471 þúsund í Grindavík. Ekki nóg með það þá hækkaði verðið um 3,1 prósent á milli ára.

Mestu hækkanirnar eru hins vegar í smæstu þorpunum. Í Garðinum (365) er hækkunin 14,6 prósent og 10,1 prósent í Sandgerði (374).

Akranes sterkt þrátt fyrir áföll

Atvinnulífið á Akranesi hefur mátt þola hvert áfallið á fætur öðru á undanförnum árum. Það virðist þó ekki endurspeglast í fasteignaverðinu því það hefur hækkað um 7,2 prósent á milli ára. Fermeterinn kostar þar nú 551 þúsund krónur og er sá sjötti dýrasti á landsbyggðinni.

Langmestu hækkunina á Vesturlandi má hins vegar finna á Stykkishólmi (357), heil 20,9 prósent í hinu fallega þorpi við Breiðafjörð.

Verðið hefur hækkað um meira en 20 prósent á Stykkishólmi.

Einnig má sjá myndarlegar hækkanir á Borgarnesi (436), Grundarfirði (290) og Ólafsvík (196), allt í kringum 10 prósentin. En langtum minni í smærri þéttbýliskjörnum og meira að segja rúmlega eins prósents rénun á Hvanneyri (327) þar sem Landbúnaðarháskólinn er til húsa.

Sjókvíaeldið lyftir Vestfjörðunum

Hækkanirnar hafa þó verið mestar á Vestfjörðum og er það einkum rakið til uppgangs í atvinnulífinu vegna sjókvíaeldis.

Hvergi á landinu hefur fasteignaverð hækkað meira en á Bolungarvík (210), um heil 32,1 prósent. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hækkunin er mest á Bolungarvík, bæjarfélags sem hefur barist við að koma íbúafjöldanum yfir 1000 þúsund manns um langt skeið.

Hvergi er hækkunin meiri en í Bolungarvík.

Vitaskuld er verðið á Vestfjörðum þó hæst á Ísafirði. Í eldri byggðinni er það 403 þúsund krónur en 307 í yngri byggðinni og 182 í Hnífsdal.

Fyrir utan Súðavík (140) þar sem verðið lækkaði hafa sést tveggja stafa prósentuhækkanir á flestum stöðum á Vestfjörðum. Svo sem Patreksfirði (291), Tálknafirði (146), Þingeyri (133), Bíldudal (128) og Flateyri (127). Hafa ber þó í huga að þó hækkanirnar séu miklar þá er verðið enn þá eitthvað það lægsta á landinu.

Verð lækkar víða á Akureyri

Akureyri er langfjölmennasti bærinn á Norðurlandi og vilja margir í raun kalla staðinn borg. Fasteignaverð er þar mjög misjafnt eftir hverfum. Dýrasti hluti bæjarins er Naustahverfið (622), syðst í bænum og vestan við flugvöllinn. Þá kemur Giljahverfi (577), Efri Brekka (526), Neðri Brekka, Eyrin og innbærinn (511) en Glerárhverfið nyrst í bænum er ódýrast (494).

Vekur hins vegar nokkra eftirtekt að í hinum þremur síðastnefndu hverfum hefur fasteignaverðið lækkað á milli ára, frá 0,3 upp í 0,6 prósentustigum. Almennt er lítil hækkun fasteignaverðs á Akureyri, mest 4,6 prósent í Giljahverfinu.

Syðri hverfi eru dýrari en þau nyrðri á Akureyri.

Á eftir Akureyri koma helstu þéttbýlisstaðir á Norðurlandi, Sauðárkrókur (370), Húsavík (354), Dalvík (316), Siglufjörður (230), Hvammstangi (227), Hofsós (210) og Blönduós (178). Eru hækkanirnar sérstaklega myndarlegar á Norðvesturlandi, allar í tveggja stafa prósentutölum og heil 26,1 prósent á Skagaströnd (143).

Lægsta húsnæðisverð landsins er í Norður Þingeyjarsýslu. Á Raufarhöfn er það aðeins 54 þúsund krónur fermeterinn og hefur lækkað um 1,7 prósent á milli ára.

Mun meiri hækkanir á Austfjörðum en Egilsstöðum

Að lokum komum við að Austurlandi þar sem verðið er hæst á Egilsstöðum (432) en hækkunin þar er þó aðeins 1,7 prósent á milli ára.

Mestu hækkanirnar, allt að 18,2 prósentum má finna í bæjum á Austfjörðum eins og Reyðarfirði (343), Seyðisfirði (239), Fáskrúðsfirði (225) og Breiðdalsvík (121).

Egilsstaðir er dýrasti bærinn á Austurlandi en verðið hefur lítið hækkað þar milli ára.

Aðeins á Djúpavogi (161) hefur verið lækkun fasteignaverðs og það aðeins um 0,1 prósent.

Af öðrum stöðum má nefna Neskaupstað (312), Eskifjörð (217), Vopnafjörð (150) og Bakkagerði, betur þekkt sem Borgarfjörð eystri (110).

 

20 dýrustu þéttbýliskjarnarnir á landsbyggðinni (fermetraverð í þúsundum króna)

  1. Hveragerði 609
  2. Selfoss 576
  3. Vogar 560
  4. Akureyri 558
  5. Njarðvík 554
  6. Akranes 551
  7. Keflavík 528
  8. Þorlákshöfn 514
  9. Grindavík 471
  10. Laugarvatn 449
  11. Ásbrú 445
  12. Borgarnes 436
  13. Höfn 436
  14. Egilsstaðir 432
  15. Vestmannaeyjar 414
  16. Sandgerði 374
  17. Sauðárkrókur 370
  18. Garðurinn 365
  19. Stykkishólmur 357
  20. Fellabær 356

 

20 ódýrustu þéttbýliskjarnarnir á landsbyggðinni

  1. Raufarhöfn 54
  2. Kópasker 90
  3. Suðureyri 101
  4. Bakkagerði (Borgarfjörður eystri) 110
  5. Breiðdalsvík 121
  6. Flateyri 127
  7. Bíldudalur 128
  8. Þórshöfn 131
  9. Þingeyri 133
  10. Hrísey 134
  11. Súðavík 140
  12. Hellissandur 142
  13. Rif 143
  14. Skagaströnd 143
  15. Tálknafjörður 146
  16. Vopnafjörður 150
  17. Árskógssandur og Hauganes 154
  18. Stokkseyri 158
  19. Djúpivogur 161
  20. Ólafsfjörður 162

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti