Heimildin ræðir við fjölmargra sérfræðinga á þessu sviði og er Stefan í þeim hópi. Hann er virtur sérfræðingur á sviði loftslagsmála og var í hópi þeirra sem fengu friðarverðlaun Nóbels árið 2007.
Ein af afleiðingum hlýnunar jarðar eru breytingar á hafstraumum sem aftur hafa mikil áhrif á veðurfar. Í umfjöllun Heimildarinnar er bent á að Ísland sé við hinn svokallaða „bláa blett“ sem er eina svæði jarðar þar sem loftslag kólnar í stað þess að hitna.
Í umfjöllun Heimildarinnar er bent á að Stefan hafi nýlega kynnt fræðigrein sína um líkurnar á því að hin svokallaða veltihringrás Atlantshafsins (AMOC) brotni niður. Hringrásin stuðlar meðal annars að flutningi hlýs yfirborðssjávar í norður og djúpstreymi kaldari sjávar suður. Hringrásin hefur veikst á síðustu áratugum og virðist „blái bletturinn“ vera til marks um það.
En hvað gerist ef algjört niðurbrot verður á þessu AMOC-kerfi?
Stefan stillir upp þremur sviðsmyndum í samtali við Heimildina og tekur sú fyrsta tillit til núverandi ástands og þeim breytingum sem hafa orðið síðustu áratugi, meðal annars með tilliti til „bláa blettsins“.
Önnur sviðsmyndin gerir ráð fyrir að „blái bletturinn“ kólni enn frekar og raunar virðast miklar líkur á að það gerist, jafnvel upp úr árið 2030. Þriðja sviðsmyndin gerir svo ráð fyrir algjöru niðurbroti sem tekið er fram að sé ólíklegri sviðsmynd en sviðsmynd tvö.
Í umfjölluninni er bent á að miðgildis hitastig Íslands yrði meira en 2 gráðum lægra en nú er og gætu veturnir hér á landi orðið allt að tíu gráðum kaldari en nú. Segir í greininni að veðurfar yrði stormasamt og öfgafullt og hitastigið færast nær því sem er á Svalbarða.