Margir Japanar upplifa að yfirmenn þeirra neita að samþykkja uppsögn þeirra, því það er algjörlega úr takti við venjur og hefðir að fólk segi starfi sínu lausu. Þeir, sem segja upp, eru oft hræddir um að valda samfélaginu, sem þeir tilheyra, vonbrigðum. Enda er það reglan í Japan að fólk er í sama starfinu allt lífið.
CNN skýrir frá þessu. Fram kemur að talsmenn fyrirtækisins Momuri, sem hjálpar fólki að segja upp, segi að á síðasta ári hafi það fengið 11.000 nýja viðskiptavini.
Momuri, sem þýðir „ég get þetta ekki lengur“ hjálpar viðskiptavinum sínum við að senda uppsagnir, semja við vinnuveitendur og hjálpar þeim að komast í samband við lögmenn ef lagaleg álitamál koma upp í tengslum við uppsögnina.
Það er ekki ólöglegt að segja upp í Japan en það er erfitt því hefðin er að maður sé í sama starfinu alla ævi.
Á síðustu árum hefur verið venja að fólk sé ráðið til starfa ævilangt og að það sýni vinnuveitanda sínum mikla tryggð. Þess vegna er litið niður á fólk sem skiptir oft um starf og mikil skömm tengist því að skipta um starf.
Samkvæmt lögum getur fólk sagt upp en margir vinnuveitendur eru vanir hefðbundnum valdapýramída og vilja ekki leyfa fólki að hætta því þeir hafa eytt tíma og peningum í að þjálfa það. Af þeim sökum sitja margir í sama starfinu, sem þeir vilja eiginlega ekki vera í, af tillitssemi við samfélagið.