fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Dýrustu og ódýrustu hverfin á höfuðborgarsvæðinu – Urriðaholtið orðið rándýrt en Grafarholtið lækkar skarpt

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 14. september 2024 10:30

Staðsetning skiptir máli þegar kemur að fermetraverði.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gamli Vesturbærinn í Reykjavík er það svæði á höfuðborgarsvæðinu þar sem húsnæðisverð hefur hækkað mest en Suðurhlíðarnar hafa hæsta fermetraverðið. Í einstaka hverfum hefur fasteignaverð rénað.

Þetta má sjá í vefsjá matssvæða hjá Húsnæðis og mannvirkjastofnun. Það er byggt á fasteignamati. DV skoðaði hvaða svæði á höfuðborgarsvæðinu eru þau dýrustu og ódýrustu og hvar breytingarnar hafa verið mestar á milli ára. Hin óformlega rannsókn byggir á fermetraverði fjölbýlishúsnæðis.

Stóru línurnar eru þær að fasteignaverð er hæst vestarlega og miðsvæðis í Reykjavík en lægra í úthverfunum og í nágrannasveitarfélögunum. Fermetraverðið getur hins vegar verið afar misjafnt, jafn vel innan sömu hverfa.

Suðurhlíðarnar dýrastar

Hæsta fermetraverðið er í Suðurhlíðunum í Reykjavík, hverfi sem stundum er kallað hverfið á milli lífs og dauða í ljósi staðsetningu þess á milli Borgarspítalans og Fossvogskirkjugarðs. Þar er fermetraverð fjölbýlis 921 þúsund krónur, um 40 þúsund krónum hærra en nokkurs staðar annars staðar.

Fermetraverðið í Suðurhlíðunum er næstum 200 þúsund krónum hærri en í sjálfu Hlíðahverfinu, þar sem það er 730 þúsund krónur.

Mesta hækkunin í Vesturbænum

Á liðnu ári hefur verðið hins vegar hækkað mest í gamla Vesturbænum, eða Vesturbæ vestan Bræðraborgarstígs eins og hverfið kallast í vefsjánni. Það er um 10,8 prósent og er verðið nú 849 þúsund, það fimmta hæsta á höfuðborgarsvæðinu.

Hækkunin hefur verið mest í Vesturbænum í Reykjavík.

Einnig hefur verðið hækkað mjög stíft á Ægissíðu og í Högunum, eða um 7,7 prósent. Til samanburðar þá hefur verð í Melunum aðeins hækkað um 1,6 prósent og í miðbænum hefur það lækkað um 0,5 prósent.

Á meðal annarra dýrra hverfa miðsvæðis eru Skerjafjörðurinn (882 þúsund), Valsreiturinn (876) og Miðbærinn frá Tjörninni að Snorrabraut (867). Ódýrari svæði miðsvæðis má meðal annars nefna Suður-Þingholtin (757), Háteigshverfið (766) og Háaleiti (682). Seltjarnarnesið er einnig ódýrara en Vesturbærinn og Miðbærinn, sérstaklega svæðið í kringum Eiðistorg og yst á nesinu, þar sem verðið er á bilinu 705 til 719 þúsund krónur.

Skörp lækkun í Grafarholti

Af hverfum austar í borginni er verðið hæst í hinni nýbyggðu Vogabyggð, 823 þúsund krónur fermeterinn. Úlfarsárdalurinn er dýrastur af ystu úthverfum borgarinnar, 773 þúsund. Til samanburðar þá er verðið í Grafarvoginum á bilinu 615 til 704 þúsund, 687 í Grafarholtinu og 690 í Árbænum.

Grafarholt sker sig úr að því leyti að fasteignaverðið hefur lækkað mjög skarpt þar milli ára, eða um tæpt prósentustig. Hvergi er lækkunin jafn mikil nema í Vatnsenda í Kópavogi.

Lækkun í tveimur hverfum Breiðholts

Fyrir utan Kjalarnesið er langódýrasta hverfið í Reykjavík Breiðholtið. Í Fella og Bakkahverfum er verðið aðeins í kringum 590 þúsund og litlu hærra í Hólum og Bergum, það er 616 þúsund. Seljahverfið er stærsta hverfið í Breiðholti en þar kostar fermeterinn 632 þúsund krónur í fjölbýli.

Í tveimur hverfum Breiðholts hefur verð lækkað á milli ára, það er Hólum og Bergum annars vegar og Fellahverfi hins vegar. Um um það bil hálft prósentustig.

Fyrir utan Kjalarnes er Breiðholtið ódýrast í Reykjavík.

Eins og áður segir ber Reykjavík höfuð og herðar yfir önnur sveitarfélög þegar kemur að fasteignaverði. Tólf dýrustu hverfin eru í Reykjavík.

Hafa ber þó í huga að í sumum hverfum, til dæmis Arnarnesinu og Flötum í Garðabæ, Neðra Breiðholti í Reykjavík og Leirvogstungu og Reykjahverfi í Mosfellsbæ eru engin fjölbýlishús.

Urriðaholtið dýrt en Álftanesið ekki

Dýrasta hverfið utan Reykjavíkur er Urriðaholtið í Garðabæ, verðið 801 þúsund krónur. Líkt og Valsreiturinn og Vogabyggð í Reykjavík er það nýtt og hratt rísandi hverfi. Verðið hefur einnig hækkað mjög mikið á milli ára í Urriðaholti, eða um 7,2 prósent. En það er langmesta hækkunin utan Reykjavíkur.

Í Garðabæ er verðið einnig nokkuð hátt í Sjálandi (778) og Ásum (761). Verðið í Akrahverfinu (720) og miðbæ Garðabæjar (730) er ögn skárra. Langódýrasta hverfið í Garðabæ er hins vegar Álftanesið, sveitarfélag sem var innlimað þegar það stefndi í gjaldþrot árið 2012. Þar er fermetraverðið 686 þúsund krónur.

Jafnasta verðið í Kópavogi

Af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er fasteignaverðið jafnast í Kópavogi. Dýrustu svæðin eru gamli Vesturbær Kópavogs, Hjallarnir og Smárahverfið. Þar er verðið í kringum 760 þúsund krónur.

Í Kópavogi er verðið nokkuð jafnt og nokkuð á miðjunni hvað varðar höfuðborgarsvæðið.

Kórahverfið er það ódýrasta í Kópavogi, 661 þúsund, og er munurinn á því dýrasta og ódýrasta því aðeins 100 þúsund krónur. Af öðrum hverfum Kópavogs má nefna Linda og Salahverfi (718), Hvörf og Þing í Vatnsenda (681) og gamla Austurbæinn (712).

Vellirnir dýrastir í Hafnarfirði

Verðið í Hafnarfirði er almennt séð lægra en í áðurnefndum sveitarfélögum, enda lengst frá miðborg Reykjavíkur. Verðið er þó mjög misjafnt innan bæjarins.

Dýrasta hverfið í Hafnarfirði eru Vellirnir, sem eru syðsta hverfið en jafn framt það nýjasta. Þar kostar fermetrinn 708 þúsund krónur og er það eina hverfið sem fer yfir 700 þúsund krónurnar.

Fermeterinn er almennt séð billegastur í Hafnarfirði þó að mikill munur sé á milli hverfa.

Flest hin hverfin komast á lista yfir ódýrustu hverfi höfuðborgarsvæðisins. Lægst er verðið í Hvömmum (565) og einnig er það mjög lágt á Hvaleyrarholti (590).

Meðalverð í stærstum hluta Hafnarfjarðar, það er Miðbænum, Vesturbænum og stórum hluta Norður og Suðurbæjar er verðið 686 þúsund. Lægra er það í Setbergi (676), Áslandi (671), Börðum (667) og Vöngum (614).

Í Miðbæ Mosfellsbæjar er fermetraverðið 735 þúsund. Öllu ódýrari eru Höfðar og Hlíðar (708) og Teigar og Krikar (622).

 

20 dýrustu hverfin á höfuðborgarsvæðinu (fermetraverð í þúsundum króna)

  1. Suðurhlíðar 921
  2. Skerjafjörður 882
  3. Valsreitur 876
  4. Miðbær frá Tjörn að Snorrabraut 867
  5. Vesturbær vestan Bræðraborgarstígs 849
  6. Holtahverfi 843
  7. Vogabyggð 823
  8. Ægissíða og Hagar 811
  9. Verkamannabústaðir og Grund 810
  10. Fossvogur 810
  11. Túnahverfi 808
  12. Hofsvallagata norðan Landakots 805
  13. Garðabær: Urriðaholt 801
  14. Tjarnir og Grandi 797
  15. Kringlan 783
  16. Blesugróf 778
  17. Garðabær: Sjáland 778
  18. Seltjarnarnes 777
  19. Skjól 774
  20. Úlfarsárdalur 773

 

20 ódýrustu hverfin á höfuðborgarsvæðinu

  1. Kjalarnes 497
  2. Hafnarfjörður: Hvammar 565
  3. Fellahverfi 589
  4. Hafnarfjörður: Hvaleyrarholt 590
  5. Bakkahverfi 591
  6. Hafnarfjörður: Vangar 614
  7. Garðabær: Staðir 615
  8. Hólar og Berg 616
  9. Mosfellsbær: Teigar og Krikar 622
  10. Seljahverfi 632
  11. Hamrar, Foldir og Hús í Grafarvogi 659
  12. Kópavogur: Kórahverfi 661
  13. Ártúnsholt og Höfðar 662
  14. Hafnarfjörður: Börð 667
  15. Hafnarfjörður: Ásland 671
  16. Hafnarfjörður: Setberg 676
  17. Kópavogur: Hvörf og Þing 681
  18. Háaleiti og Skeifa 682
  19. Garðabær: Álftanes 686
  20. Bakkahverfi 686

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti