Verðtryggðir útlánavextir Arion voru hækkaðir hressilega í dag samkvæmt tilkynningu á vef bankans.
Hvað íbúðalán varðar þá hækka verðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir um 0,6 prósentustig og verða 4,64% en verðtryggðir fastir íbúðalánavextir hækka um 0,5 prósentustig og verða 4,74%. Verðtryggðir breytilegir kjörvextir hækka svo um 0,75 prósentustig og verða 6,2%.
Samkvæmt tilkynningu má rekja hækkunina vegna hækkunar á ávöxtunarkröfu verðtryggðrar fjármögnunar, en bankinn ákveður ávöxtunarkröfuna sjálfur. Segir ennfremur í tilkynningu:
„Breytingar á vöxtum lána sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taka gildi í samræmi við skilmála lánanna og tilkynningar um vaxtabreytingar.
Vaxtabreytingar útlána taka mið af fjármögnunarkostnaði bankans á hverjum tíma en einnig af öðrum þáttum, m.a. útlánaáhættu. Fjármögnunarkostnaður bankans fylgir að hluta til stýrivöxtum Seðlabankans en einnig hafa aðrar fjármögnunarleiðir umtalsverð áhrif, svo sem innlán viðskiptavina, markaðsfjármögnun, erlend skuldabréfaútgáfa og eiginfjárgerningar.“