fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Diljá vill bæta heimilisbókhaldið hjá foreldrum – Skattafrádráttur hækkar mest eftir þriðja barnið

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 10. september 2024 11:15

Þessi móðir fengi 1.315.000 kr. í skattafrádrátt verði frumvarpið að veruleika. Mynd: Unsplash

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þing hefst að nýju í dag, en þingsetningarathöfnin hefst kl. 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu. Að guðsþjónustu lokinni er gengið aftur til þinghússins og forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, setur Alþingi, 155. löggjafarþing. 

Í dag verða fyrstu þingmál nýs þings lögð fram og segist Diljá Mist Einarsdóttir hafa  nýtt sumarið vel til undirbúnings og átt fjölmarga góða fundi, og í dag muni hún leggja fram nokkur þingmál, sum ný en önnur lögð fram að nýju.

Diljá Mist Einarsdóttir

Meðal nýrra þingmála hyggst Diljá leggja fram frumvarp um skattafrádrátt vegna barna yngri en 16 ára.

„Lagafrumvarp um skattafrádrátt vegna barna innan 16 ára aldurs á framfæri forráðamanns samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum: 150.000 kr. vegna eins barns, 300.000 kr. vegna tveggja barna, 575.000 kr. vegna þriggja barna og 370.000 kr. til viðbótar við 575.000 fyrir hvert barn umfram þrjú.“ 

Diljá leggur frumvarpið fram ásamt fleiri flokkssystkinum sínum og í grein sinni á Vísi segir hún sjálfstæðismenn almennt þeirrar skoðunar að skatta þurfi að lækka og opinberar álögur séu of háar á barnafjölskyldur. 

„Fæðingartíðni á Íslandi er auk þess í sögulegu lágmarki og umræða hefur spunnist um að barneignir séu orðnar forréttindi. Enda sýna rannsóknir að fæðingartíðnin hefur minnkað mest hjá þeim sem eru í lægri tekjuþrepum. Skattaafsláttur vegna framfærslu barna er meðal þess sem ég mun beita mér fyrir í þinginu. Vonandi fáum við sjálfstæðismenn fleiri með okkur á þann vagn.“ 

Diljá á sjálf ung börn og segist með mikið af barnafólki kringum sig og því sé staða barnafjölskyldna henni hugleikin.

„Sú staðreynd opnar augu mín fyrir því að barneignir hafa verulega neikvæð áhrif á tekjur foreldra, ekki síst mæðra sem taka ennþá mun stærri hluta fæðingarorlofs og lengja það enn frekar. Byrjunarkostnaður í aðdraganda og strax í kjölfar barneigna er mikill. Dagvistunarvandinn frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til börn fá dagvistunarpláss eykur enn á útgjöld og fjárhagsáhyggjur foreldra. Þótt skylduskólaganga (og nú skólamáltíðir) séu ókeypis, fylgja ýmis útgjöld börnum sem hafa lokið leikskólagöngu.

Má þar m.a. nefna skipulagt frístundastarf grunnskólanna, auk íþrótta og annarra tómstunda sem eru mjög kostnaðarsamar þrátt fyrir (eða í takt við) veglegan frístundastyrk sveitarfélaga. Tómstundastarf er lykilþáttur í forvarnastarfi og þátttaka barna og ungmenna í slíku starfi er mjög góð í samanburði við aðrar þjóðir. Þá er ég ekki einu sinni byrjuð að ræða rekstrarkostnað barnafjölskyldna; fleiri munna til að metta og kroppa til að klæða.“ 

Hlé verður gert á þingsetningarfundi til kl. 16:00. Þá verður hlutað um sæti þingmanna og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2025 útbýtt. Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða miðvikudagskvöldið 11. september kl. 19:40.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt