„Covid-faraldur, stríðið í Úkraínu og vaxandi þensla á húsnæðismarkaði var augljós jarðvegur aukinnar verðbólgu, nema hjá ráðamönnum þjóðarinnar,“ segir Inga í grein í Morgunblaðinu í dag og rifjar upp samtöl sem hún átti við Bjarna Benediktsson sem þá var fjármálaráðherra og Katrínu Jakobsdóttur þáverandi forsætisráðherra.
„Ég spurði þáverandi fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson að því hvort ríkisstjórnin væri með áætlun til að verja fjölskyldur og fyrirtæki gegn komandi verðbólgu. Svarið var í takt við annað rugl sem komið hefur frá þessari óhæfu ríkisstjórn. „Okkur stendur ekki mikil ógn af verðbólgunni.“ Þá var hún s.s. 2,13%.“
Og árið 2021 spurði hún Katrínu Jakobsdóttur hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera nú þegar aðeins nokkrar vikur voru eftir af löggjafarþinginu til að vernda heimilin í landinu fyrir verðbólgunni.
„Svar hennar var þetta: „Spár gera frekar ráð fyrir því að verðbólgan hjaðni þegar líða tekur á árið.“ Hún sá sem sagt enga ástæðu til þess að grípa til fyrirbyggjandi varnaraðgerða gegn vaxandi verðbólgu sem þá hafði ríflega tvöfaldast á milli ára og mældist 4,44%.“
Inga segir að aðeins tólf mánuðum síðar hafi verðbólgan enn tvöfaldast og í júní 2022 hafi hún mælst 8,83%.
„Þrátt fyrir það sneru stjórnvöld blinda auganu að vandanum. Hunsuðu blússandi verðbólgu, hækkandi vexti og verðtryggingu. Ekkert var gert til að setja belti og axlabönd á skuldsettar fjölskyldur og fyrirtæki heldur þvert á móti voru ráðherrar á móti öllum slíkum varnaraðgerðum,“ segir hún.
Inga segir að öll önnur Evrópulönd sem ekki börðust í stríði hafi náð stjórn á verðbólgudraugnum og þeim hafi tekist að kveða hann niður á tiltölulega skömmum tíma. Hún segir að íslensk stjórnvöld hafi hellt olíu á verðbólgubálið með enn frekari álögum og krónutöluhækkunum.
„Þegar skynugir stjórnmálamenn annarra landa náðu að kveða verðbólguna niður mældist hún hátt í 10% á Íslandi. Á meðan stjórnvöld á Íslandi stuðluðu að stöðugri þenslu í efnahagskerfinu drógu aðrar þjóðir úr öllum álögum, lækkuðu skatta, sýndu aga í útgjöldum, settu á leigubremsur og lækkuðu álögur svo eitthvað sé nefnt,“ segir hún og ítrekar að Flokkur fólksins hafi kallað ítrekað eftir fyrirbyggjandi aðgerðum til verndar samfélaginu.
„Ríkisstjórnin taldi enga ástæðu til að hafa áhyggjur. Síðan hefur verðbólga riðið hér röftum og stýrivextir og okurvextir eru að ganga af samfélaginu dauðu. Þeir sem allt eiga græða á tá og fingri á meðan þeir sem eru að reyna að koma þaki yfir höfuðið eru arðrændir enn á ný. Þessi óhæfa verklausa ríkisstjórn hefur í engu komið með úrbætur í því neyðarástandi sem hefur skapast í þjóðfélaginu. Þvert á móti staðið hjá aðgerðalaus og gefið Seðlabankanum skotleyfi á skuldsett heimili og fyrirtæki með okurvaxtastefnu sinni.“