fbpx
Mánudagur 30.desember 2024
Fréttir

Þórarinn líka fengið nóg: „Alltaf skal almenningur sitja í súpunni“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 9. september 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis stéttarfélags og 1. varaformaður BSRB, segir augljóst að koma þurfi þessari verklausu ríkisstjórn sem nú er við völd frá. Þórarinn skrifar pistil á vef Vísis þar sem hann minnir á mótmæli á Austurvelli sem fyrirhuguð eru á morgun þegar Alþingi kemur saman.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingkona Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, skrifuðu einnig um mótmælin í morgun.

Almenningur alltaf látinn borga brúsann

„Árum saman hefur það verið reynsla almennings að það er sama hvernig hagkerfið veltist og snýst, alltaf skal almenningur borga brúsann og bera skarðan hlut frá borði. Hrunið, kóvid, stýrivextir, verðbólga, húsnæðislán á okurvöxtum, alltaf skal almenningur sitja í súpunni. Í þeim efnahagslegu hörmungum sem nú dynja á samfélaginu er ágætt að setja síðustu ár í samhengi,“ segir Þórarinn.

Borgaði 120 þúsund en svo féll snjóhengjan – „Hvernig er þetta ekki glæpsamlegt ofbeldi?“

Hann nefnir í fyrsta lagi niðurstöður þjóðfundarins í kjölfar efnahagshrunsins og svo niðurstöður Stjórnalagaráðs árið 2011 sem fóru alla leið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Niðurstöðurnar voru nokkuð afgerandi; 67% þjóðarinnar vildu að tillögur ráðsins yrðu grunnur að nýrri stjórnarskrá og 83% vildu að sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar yrðu lýstar þjóðareign.

„Sem vel að merkja felur í sér að arður af sameiginlegum auðlindum eigi að renna til þjóðarinnar sjálfrar. Eftir að spillt stjórnkerfi og spillt efnahagslíf hafði lagt efnahag þjóðarinnar í rúst, krafðist almenningur þess að samfélagið yrði aftur reist við með heiðarleika, jafnrétti og velferð allra að leiðarljósi. Spunadoktorum stjórnvalda tókst að snúa upp á þá hugmynd hratt og örugglega,“ segir Þórarinn.

Auðlindum komið í hendur auðmanna

Hann segir í grein sinni að valdaklíkurnar í stjórnmálum og efnahagslífi þjóðarinnar láti ekki að sér hæða. Hægt en örugglega sé auðlindum komið í hendur auðmanna og gildir þá einu um hvort er að ræða sjávarútveg, land, vatn, vind eða saltan sjó undir fiskeldi.

„Svo ekki sé minnst á heilu bankana þar sem bestu kýrnar eru seldar fyrir slikk, ef ekki beinlínis færðar ættingjum á silfurfati. Það er alveg sama hvort verið er í góðæri eða kreppu, núverandi valdaklíkur ætla öllum stundum að sjá til þess að almenningur skuli blæða og fjármagnseigendur græða.“

Þórarinn segir síðan að Seðlabankinn sé trúlega að setja nýtt hraðamet í eignaupptöku með tilflutningi fjármagns og eigna frá almenningi til auðmanna.

„Seðlabankinn bjó til lántökukapphlaup með því að stilla stýrivöxtum í næstum því ekki neitt árið 2020, en heldur nú uppi glórulausum stýrivöxtum sem ætlað er að draga úr neyslu almennings og minnka verðbólgu. Þessir draumar Seðlabankans eru þó ekki að vinna á verðbólgunni því það er ekki almenningur sem hér er ábyrgur. Á næstu mánuðum munu 400 milljarðar í óverðtryggðum lánum losna og fyrir liggur að stór hluti þeirrar upphæðar mun rata í verðtryggð lán, sem að lokum mun færa bönkum og fjármagnseigendum ríkulegan ávöxt beint úr vösum almennings. Á sama tíma er vitað að íslenskur íbúðamarkaður er núna leikvöllur fjármagnseigenda, þar sem þeir eru ábyrgir fyrir 90% af öllum fasteignakaupum og græða á tá og fingri. Vitað er að það er einmitt fasteignamarkaðurinn sem er ábyrgur fyrir stærstum hluta verðbólgunnar.“

Nú er nóg komið

Þórarinn segir að nú sé nóg komið og bendir á að í samfélagi þar sem heiðarleiki, jafnrétti og velferð væri útgangspunkturinn, eins og gengið var út frá í niðurstöðum þjóðfundarins í kjölfar hrunsins, væri fyrir löngu búið að regluvæða íbúða- og leigumarkaðinn með hagsmuni almennings í huga. „Þar væri einnig tryggt að þjóðin nyti eigna sinna og auðlinda á sama tíma og réttmæt skattheimta skilaði sínu til samfélagsins.“

Þórarinn segir að launafólk hafi gert sitt og samið hafi verið um hógværar launahækkanir í síðustu kjarasamningum. Á sama tíma hafi verið kallað eftir ábyrgð stjórnvalda og atvinnurekenda í að lækka stýrivexti og verðbólgu.

„Launafólk hefur tekið hlutverk sitt alvarlega og lagt sitt af mörkum – en nú er nóg komið. Núverandi stjórnvöld virðast vera uppteknari af því að gefa norskum fjármálamönnum auðlindir almennings og tryggja uppáhaldsvinum sínum einokunarstöðu á kjötmarkaði, heldur en að grípa til aðgerða sem tryggja almenningi, ungum fjölskyldum og börnum, húsnæði og velferð. Það þarf augljóslega að koma þessari verklausu ríkisstjórn frá völdum. Það þarf að tryggja að við stjórnartaumunum taki ríkisstjórn sem treystir sér til að knýja fram lækkun stýrivaxta og verðbólgu og beita þeim meðulum sem skila árangri fyrir almenning í landinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ólafur sendir Björgvin Njál ískalda kveðju – Skattgreiðendur geti hugsað hlýlega til hans þegar greitt er

Ólafur sendir Björgvin Njál ískalda kveðju – Skattgreiðendur geti hugsað hlýlega til hans þegar greitt er
Fréttir
Í gær

Skuggahliðar Home Alone-stjörnu

Skuggahliðar Home Alone-stjörnu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Blaðamaður Samstöðvarinnar mátti kalla eigendur Elju þrælahaldara – Var krafinn um 15 milljónir í bætur

Blaðamaður Samstöðvarinnar mátti kalla eigendur Elju þrælahaldara – Var krafinn um 15 milljónir í bætur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Greina frá banaslysi tíu ára drengs sem búsettur var á Íslandi – Ökukennari ákærður fyrir manndráp

Greina frá banaslysi tíu ára drengs sem búsettur var á Íslandi – Ökukennari ákærður fyrir manndráp