Það er allt í klessu hjá franska landsliðinu eftir tap gegn Ítalíu í Þjóðadeildinni á föstudag en liðið mætir Belgíu í kvöld.
Óeining er í franska landsliðinu samkvæmt L’Equipe.
Þar segir að Mike Maignan markvörður liðsins hafi haldið þrumuræðu yfir leikmönnum liðsins eftir tapið gegn Ítölum.
Hann hafi í nokkrar mínútur gjörsamlega lesið yfir leikmönnum og gagnrýnt hugarfar þeirra. Kylian Mbappe og Antoine Griezmann sögðu ekki orð allan tímann.
Pirringur hefur verið að gerjast í franska hópnum í einhvern tíma en liðið var ekki sannfærandi á Evrópumótinu í Þýskalandi í sumar.
„Það sem gerist í klefanum er okkar á milli,“ segir Maignan við franska miðla.