fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fréttir

Hnífstungumálið í Vesturbænum: Örn neitar sök – „Ég man að ég var að flýja“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 9. september 2024 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Réttarhöld hófust í morgun við Héraðsdóm Reykjavíkur yfir Erni G. Sigurðssyni, sem sakaður er um manndrápstilraun og stórhættulega árás á par í Vesturbænum í janúar á þessu ári.

Árásin átti sér stað um miðja nótt á mótum Hofsvallagötu og Hringbrautar. Örn er sagður hafa verið á göngu á miðjum akvegi þegar kona og maður sem voru á gangi þar rétt hjá báðu hann um að gæta að sér vegna bílaumferðar. Hann er sagður hafa brugðist við með því að ráðast á manninn, slá hann til hans tvisvar með hníf í hendinni svo brotaþolinn hlaut af tvær hnífstungur. Hann var fluttur á slysadeild og var um tíma í lífshættu.

Við upphaf þinghaldsins í morgun huldi sakborningurinn höfuð sitt með því að breiða yfir það hálsklút. Lögmaður hans, Vilhjálmur Vilhjálmsson, hjálpaði honum við að forðast ljósmyndara en þeir stóðu út í horni bak við hurðina að dómsalnum þegar ljósmyndari DV myndaði salinn.

Sakborningurinn, sem er fæddur árið 1976, var klæddur í svört jakkaföt, hvíta skyrtu og með bindi. Hann er svarthærður með hár greitt í tagl og skeggjaður.

Örn tjáði dómara aðspurður að hann væri í sambúð og ætti þrjú börn. Hann neitar sök í málinu. Dómari bað hann um að segja frá því sem hann man af atvikum málsins.

Örn sagði að þetta hefði verið „ósköp venjulegur dagur“. Hann hefði verið heima með konu og börnum og þau hafi farið að sofa. Hann virðist hins vegar af ókunnum ástæðum hafa farið á fætur um nóttina og farið í vinnufötin sem hann hafði klæðst daginn áður. Hann man eftir sér á ákveðnum bar og að fengið sér eitt glas þar og síðan gengið heim aftur.

Segir að ráðist hafi verið á sig

Hann segist muna eftir því að það hafi verið ráðist á hann á leiðinni og yfir honum stóð hár, dökkleitur maður, og ljóshærð kona með gullspangargleraugu. „Ég man að ég var að flýja,“ sagði hann. „Það var einhver öskrandi þarna, þessi stelpa.“ – Örn sagðist ekki muna hvar þetta var, einhvers staðar á miðsvæðis eða í Vesturbænum.

Hann segist muna að hann hafi verið að leita að einhverju og það hafi verið sími sem hann hafði glatað. Síðan man hann ekki eftir sér þar til lögreglan kom. „Þetta var skelfileg upplifun, ég hélt þeir væru komnir til að hjálpa mér.“

Örn segist telja að hann hafi fengið áfall við handtökuna og man allt mjög óljóst sem gerðist í kjölfar hennar. Hann segist strax hafa sagt lögreglu að það hafi verið ráðist á hann og hann hafi verið að flýja. „Mér fannst ég vera staddur í einhverri martröð með þetta allt saman.“

Örn er fæddur árið 1976 og kemur fyrir sjónir sem miðaldra fjölskyldumaður en ekki utangarðsmaður. Hann starfar sem verktaki og sem fyrr segir er hann í sambúð og á börn.

Eldaði mat fyrir fjölskylduna

Í yfirheyrslu saksóknara lýsti Örn atvikum fyrr um kvöldið þannig að hann hafi eldað mat og borðið með fjölskyldu sinni og hann og sambýliskona hans hafi fengið sér rósavín með matnum og hann síðan fengið sér tvo einfalda rommdrykki.

Aðspurður kannaðist hann ekki við að hafa tekið nein lyf eða fíkniefni heldur aðeins nokkra áfenga drykki.

Örn segist stríða við töluvert minnisleysi og var frásögn hans af atburðum næturinnar gloppótt.

Aðspurður kannaðist hann við að hafa verið með hníf meðferðis en um hafi verið að ræða vinnuhníf sem var í vinnufötunum sem hann klæddist um nóttina eftir að hann vaknaði.

Segist hafa hagað sér undarlega

Verjandi Arnar, Vilhjálmur Vilhjálmsson, bað hann um að lýsa ástandinu á sér dagana í aðdraganda atviksins. Lýsti Örn erfiðum dögum í vinnu og að hann hafi átt erfitt með svefn. Segist hann stríða við mikil svefnvandamál og sofa lítið. Einnig hafi hann verið að berjast við minnisglöp. Örn hafði gengið til sálfræðings fyrir atvikið. Hann viðurkenndi að hann hefði hagað sér undarlega.

Hann segir að samband hans við sambýliskonuna hafi verið erfitt vegna undarlegrar hegðunar hans og svefnleysis. Aðspurður viðurkennir hann að hann hafi verið með ranghugmyndir. Lýsti hann meðal ananrs tortryggni í garð sambýliskonunnar.

Hann segist hafa verið kominn með þráhyggju fyrir vinnunni. Hann hafi leitað til sálfræðings vegna ofhugsana.

Hann viðurkenndi að hann hafi verið með ranghugmyndir og að hann hafi talið að verið væri að njósna um hann.

Telur sig hafa verið með varnarsár

Vilhjálmur spurði Örn út í sár sem hann var með á hendinni og telur Örn sárið lýsa því að hann hafi verið að verjast og gripið um hnífsblað. Hann segist hins vegar ekki muna þessi atvik. Hann sagði aðspurður að hann hafi ekki fengið þessi sár fyrir atvikið.

Er Vilhjálmur spurði hann hvað hann telji að hafi gerst þarna nóttina örlagaríku sagðist hann telja að það hafi verið ráðist á hann. Hann segir það ekki vera vana sinn að abbast upp á fólk. Hann hafi litið skringilega út þarna í vinnufötunum og fólkið hafi ef til vill hugsað með sér að þarna væri einhver sem hægt væri að stríða.

Hann man ekki vel eftir parinu sem hann er sakaður um að hafa ráðist á en man þó að konan var ljóshærð og með áberandi stór gullspangargleraugu. Örn telur að parið hafi ráðist á sig en ekki hann. Hann segir að það veki hræðilega tilfinningu að geta ekki munað þessa atburði betur. En hann segist muna mjög sterkt eftir þeirri tilfinningu að vera að flýja, reyna að komast í burtu.

Aðspurður staðfesti Örn þó, þrátt fyrir minnisleysið, að hann muni eftir því að það var ráðist á hann þessa nótt.

Örn hélt að hann hefði sjálfur hringt á lögregluna og hefði komið til að hjálpa honum.

Sagði við lögreglu að hann hefði keypt kókaín

Saksóknari benti Erni á að hann hefði í yfirheyrslu lögreglu rétt eftir atvikið sagt að hann hefði keypt kókaín af aðila sem hefði ráðist á hann með hníf og hann hefði þá dregið upp sinn hníf til að verja sig.

Örn segir að þetta sé ekki rétt og margt sér skrýtið í lögregluskýrslunum, að hluta til vegna hans eigin ástands en hann hafi verið í mikilli geðshræringu.

Hann segist ekki getað svarað fyrir margt sem er í skýrslunum og veit ekki hvort rangfærslur þar séu að kenna hans ástandi á tíma skýrslutakanna eða hvort um sé að kenna mistökum lögreglumannanna. „Hugurinn var ekki alveg í beysnu ásigkomulagi,“ sagði Örn og sagði að skilningur hans á aðstæðum hafi ekki verið réttur.

Hann segir það vera undarlega hugmynd að vakna upp um miðja nótt til að fara niður í bæ til að kaupa kókaín. Hann sagðist ekki neyta þess eða annarra fíkniefna fyrir utan áfengi, en hann hafi áður stundum neytt kókaíns til vegna streitu og kvíða.

Neitaði að svara spurningu um fyrri brot

Aðspurður segist Örn telja að parið sé að bera á hann rangar sakir. Hann telur að maðurinn hafi ráðist á sig með hnífi og hann hafi varið sig. Hann hafi líklega komið parinu fyrir sjónir sem auðvelt fórnarlamb þar sem hann sé lágvaxinn.

Saksóknari benti á að Örn lýsti sjálfum sér sem venjulegum fjölskyldumanni. Í ljósi þess spurði hún hann hvort hann hafi áður gerst sekur um ofbeldisbrot. Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi mannsins, mótmælti spurningunni og hvatti aðila til að halda sig við efni þessa máls. Hvatti hann Örn til að svara spurningunni ekki og kaus Örn að svara ekki.

Örn hefur tvisvar verið sakfelldur fyrir ofbeldisbrot en síðara brotið, sem framið var í félagi við aðra menn, átti sér stað fyrir tíu árum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilja banna innflutning frá Temu og Shein

Vilja banna innflutning frá Temu og Shein
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óánægjualda rís vegna umdeildra kaupa og áskrifendur flýja- „Það er fráleitt að kaupa sorpritið Mannlíf til þess að Reynir Traustason megi eiga áhyggjulaust ævikvöld“

Óánægjualda rís vegna umdeildra kaupa og áskrifendur flýja- „Það er fráleitt að kaupa sorpritið Mannlíf til þess að Reynir Traustason megi eiga áhyggjulaust ævikvöld“