Björn hóf útgáfuferil sinn sem ritstjóri Stúdentablaðs Háskóla Íslands og kom að starfsemi Gallerís Svart á hvítu í Suðurgötu í Reykjavík. Var starfsemin lyftistöng fyrir þá miklu gerjun sem þá var í íslenskri myndlist, einkum fyrir unga myndlistarmenn og á meðal úr nýlistadeildinni.
Björn stofnaði útgáfuna Svart á hvítu sem gaf meðal annars út Íslendingasögurnar með nútímastafsetningu, Sturlungasögu og heildarverk Jónasar Hallgrímssonar. Þá var Svart á hvítu útgefandi fjölda þýddra sem og íslenskra skáldverka.
Þess er getið í umfjöllun Samstöðvarinnar að Björn hafi verið fyrsti formaður stjórnar Alþýðufélagsins sem á og rekur Samstöðina og lykilmaður í uppbyggingu fjölmiðilsins.
Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og einn af stofnendum Samstöðvarinnar, fer hlýjum orðum um Björn á Facebook-síðu sinni. „Bjössi var einn af bestu sonum þjóðarinnar,“ segir hann meðal annars en færslu Gunnars Smára má lesa í heild hér að neðan.