fbpx
Sunnudagur 08.september 2024
Fókus

Ástarsvindlarar og eltihrellar

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 8. september 2024 17:31

Felix Åkelund, varð fyrir því að einhver tók upp á senda ungum konum skilaboð í nafni Emmu, sem segist vera kærasta hans og segir þeim að hætta að senda honum óviðeigandi myndir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Internetið og samfélagsmiðlar hafa opnað okkur óendanlega möguleika á að nálgast upplýsingar og tengjast fólki. Flestir eiga á samfélagsmiðlum ótal vini, eða vinir eru varla rétta orðið, því stór hópur þeirra er í raun bláókunnugt fólk. Þrátt fyrir það veitum við þeim aðgang að upplýsingum um einkalíf okkar, myndir af barnabörnunum, fjölskylduboðum og ferðalögum. Í raunheimum myndum við ekki einu sinni heilsa þessu fólki hvað þá bjóða því að setjast til borðs heima hjá okkur. Þetta getur verið hættulegt eins og dæmin sanna.

Mikil umræða hefur farið fram um netsvindl af margvíslegum toga og fólk er í auknum mæli farið að stíga fram og tjá sig um reynslu sína. Mikil vanlíðan og skömm fylgir því að láta blekkjast af fólki sem ekki er traustsins vert en eins og alltaf gerist þegar farið er að tala um hlutina kemst fólk að því að það er ekki eitt á báti og að enginn þarf að skammast sín fyrir að vera í eðli sínu svo góð manneskja að hann treysti öðrum og gefi þeim annað tækifæri.

Þetta kemur fram í grein sem Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar þar sem hún fjallar um sjónvarpsþætti, hlaðvörp og heimildaþætti sem fjalla um sannar frásagnir einstaklinga sem lent hafa í klóm eltihrella eða orðið þolendur netsvindla.

Fake eru ástralskir sjónvarpsþættir byggðir á sögu Stephanie Wood. Hún skrifaði skáldsögu sem kom út árið 2019 og byggði á atburðum úr hennar eigin lífi en samband hennar og blekkingameistarans endaði árið 2015. Aðalpersóna sögunnar er Birdie Bell. Einhleyp kona á fimmtugsaldri sem hafði skráð sig á stefnumótaforrit og kynnst manni í gegnum það. Birdie líst ekkert á Joe Burt í byrjun en hann heldur áfram að senda henni skilaboð og biðja um annað tækifæri. Að lokum lætur hún undan. Samkvæmt prófílnum var um að ræða vellauðugan fjárbónda og fasteignamógúl, fráskilinn og faðir tveggja barna. Fljótlega segir hann Birdie að fyrrum kona hans glími við andleg veikindi, sýni miklar skapsveiflur og sé ofbeldisfull.

Rauðu flöggin og leiðarstikurnar

Ýmis rauð flögg fóru vissulega á loft við það og af og til í byrjun sambands þeirra, Joe og Birdie. Hún stóð hann að því að verða tvísaga um ýmislegt og einhver nagandi tilfinning gerði vart við sig af og til. En svo er auðvelt að horfa framhjá rauðu flöggunum og bæla niður efasemdaröddina þegar milli þeirra birtast reglulega leiðarstikur sem virðast staðfesta að allt sé satt og rétt. Joe býður Birdie til að mynda í heimsókn á landareign sína og í kofann þar sem hann dvelur þegar hann sinnir fjárhópnum sem þarna gengur sjálfala meirihluta ársins. Hann gengur þarna inn og út og er greinilega hagvanur. Þarna eiga þau sinn fyrsta rómantíska ástarfund. Síðar kemst Birdie að því að þessi landareign var til sölu og eigendurnir voru þar sjaldan nema um helgar. Joe greip tækifærið þegar hann vissi að kofinn væri tómur. Hið sama gildir um stóra landareign sem hann segist ætla að kaupa og gera að framtíðarheimili þeirra. Eignin er til sölu og hann er búinn að undirbúa jarðveginn, fara og hitta hjónin sem eiga hana nokkrum sinnum áður og þau taka honum eins og kunningja eða vini. Í þeirri ferð segir hann Birdie að hann eigi, „svívirðilega mikið af peningum“.

Á þessum tíma gengur Birdie til sálfræðings og er að reyna að yfirvinna kvíða. Sálfræðingurinn hennar hvetur hana til að sleppa tökunum, ekki ofhugsa hlutina og treysta. Í mörgum tilfellum hefði þetta eflaust verið gott ráð en í þessu það versta sem hægt var að gefa. Birdie verður ástfangin af Joe og þegar hún kemst að því að hvert einasta orð sem hann hafði sagt henni var lygi verður það gríðarlegt áfall. Hann er gjaldþrota, með dóm á bakinu fyrir fjársvik, heimilislaus, fyrrum kona hans er fullkomlega heil á geði og hann var í samskiptum við og átti í ástarsamböndum við aðrar konur meðan hann var með Birdie. Allar afsakanir hans fyrir hvers vegna hann mætti seint eða alls ekki á stefnumót voru uppspuni frá rótum og í raun þekkti hún alls ekki manninn sem hafði gist rúm hennar, hitt fjölskyldu hennar og verið í aðalhlutverki í lífi hennar um fimmtán mánaða skeið.

Í ljós kemur að Joe Burt á sér sögu um svindl og óheiðarleika frá barnæsku. Hann er narsissisti, áráttulygari og draumóramaður. Á einum tímapunkti veltir Birdie fyrir sér hvort Joe trúi sjálfur eigin lygum á meðan hann spinnur þær upp. Þótt sagan fjalli vissulega fyrst og fremst um ofbeldissamband af þessum toga má samt segja að undirliggjandi þema sé spurningin hvers vegna við treystum ekki innsæi okkar, bælum það niður og jafnvel neitum að horfast í augu við raunveruleikann þegar kemur að ástinni. Er draumurinn um ást svo sterkur að hann yfirskyggi allt annað? Er það vegna þess að samfélagið leggur ofuráherslu á að allir séu í parasambandi og enginn geti verið heilsteypt og hamingjusöm manneskja nema með maka? Erum við ekki raunveruleg eða einhvers virði nema einhver elski okkur? Í gegnum söguna fá áhorfendur og lesendur bókarinnar að kynnast Birdie náið. Æsku hennar og uppvexti og hvernig hún mótast sem manneskja. Hugsanlega er þar að leita skýringanna á því hvers vegna hún þarfnast þess svo mjög að trúa á ævintýrið. Kannski höfum við öll jafnmikla þörf fyrir að trúa á ævintýri.

Neteineinelti og eltihrellar

Önnur gerð ofbeldis er svo neteinelti. Eltihrellar hafa fundið sér leiðir til að nota Internetið til að kvelja og í raun í eyðileggja líf annarra. Í spilara RUV er aðgengileg heimildaþáttaröðin Stalker. Þar segir frá ungum sænskum manni, Felix Åkelund, sem verður fyrir því að einhver tekur upp á senda ungum konum skilaboð í nafni Emmu, sem segist vera kærasta hans og segir þeim að hætta að senda honum óviðeigandi myndir. Síðar sendir Emma yfirmönnum hans og vinum skilaboð og fullyrðir að hann beiti konur ofbeldi.  Smátt og smátt eyðileggur viðkomandi orðspor hans og líf en á bak við þetta stendur einhver allt annar en hin unga Emma sem myndin sem fylgir prófílnum er af. Felix veit ekkert hver þetta er og lögreglan vísar málinu frá, neitar í fyrstu að rannsaka það eða aðstoða hann.

Sambærileg mál hafa komið upp á Íslandi og þolendur í sumum tilfellum mætt áhugaleysi lögreglu og verið sagt að engin ástæða sé til að óttast um öryggi sitt. Enginn sem horfir á þessa þætti getur tekið undir að svo sé. Eltihrellar eru hættulegir og þeir geta auðveldlega eyðilagt líf fólks. Það er erfitt að vinna aftur gott orðspor þegar mannorð manna hefur verið lagt í rúst. Það er hræðilegt að upplifa að fylgst sé með manni, að ókunnug manneskja viti alltaf hvar þú ert stödd eða staddur og hafi aðgang að þínum nánustu, að öll stjórn á eigin lífi sé tekin úr höndum þér og þú vitir ekkert hver brúðustjórnandinn er sem hefur sett allt á hvolf. Það er því ágætt að vera meðvitaður um hættur Internetsins og hleypa ekki hverjum sem er að sér þar frekar en við bjóðum ekki öllum inn heima hjá okkur.

Greinin er birt að hluta með góðfúslegu leyfi Lifðu núna, hana má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Michael Keaton vill vera kallaður sínu raunverulega nafni

Michael Keaton vill vera kallaður sínu raunverulega nafni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Simmi gekk í gegnum annað sorgarferli eftir skilnaðinn þegar nákominn vinur reyndist ekki vinur í raun – „Vináttan sem þú hélst að væri harðari en grjót reyndist byggð á sandi“

Simmi gekk í gegnum annað sorgarferli eftir skilnaðinn þegar nákominn vinur reyndist ekki vinur í raun – „Vináttan sem þú hélst að væri harðari en grjót reyndist byggð á sandi“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Brashjónin skelltu sér í óhefðbundna bumbumyndatöku – „Bras held­ur áfram að ein­kenna tíma okk­ar“

Brashjónin skelltu sér í óhefðbundna bumbumyndatöku – „Bras held­ur áfram að ein­kenna tíma okk­ar“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsathöfnin sem Katy Perry iðkar ef eiginmaðurinn vaskar upp

Kynlífsathöfnin sem Katy Perry iðkar ef eiginmaðurinn vaskar upp
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er ekki bara fangelsiskerfið sem er gallað. Það er líka geðheilbrigðiskerfið. Og skólakerfið“

„Það er ekki bara fangelsiskerfið sem er gallað. Það er líka geðheilbrigðiskerfið. Og skólakerfið“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kevin myndaði eldgosið og átti ekki von á þessu – „Ekki vera þessi manneskja“

Kevin myndaði eldgosið og átti ekki von á þessu – „Ekki vera þessi manneskja“