Roy Keane, goðsögn Manchester United, neitaði að spila góðgerðarleik gegn Celtic í gær en þar komu aðrar goðsagnir félagsins fram.
Leikmenn eins og Wayne Rooney, Paul Scholes, Antonio Valencia og Nicky Butt spiluðu er Celtic vann 5-4 sigur.
Keane neitaði hins vegar að spila í leiknum en hann segist einfaldlega ekki vera í standi til þess að spila fótbolta í dag.
Keane hefur ekki bætt á sig mörgum kílóum eftir að skórnir fóru á hilluna en hann er hins vegar með litla sem enga hlaupagetu að eigin sögn.
,,Standið á mér er vandræðalegt. Þó ég hafi ekki bætt á mig mörgum kílóum þá þýðir það ekki að ég sé í góðu líkamlegu standi,“ sagði Keane.
Keane lék með báðum liðum á sínum ferli og var búist við að hann myndi taka einhvern þátt í viðureigninni en svo varð ekki raunin.