OnlyFans er miðill sem gerir notendum kleift að selja efni sitt til áskrifenda gegn mánaðarlegu gjaldi. Aðdáendur geta einnig sent notendum skilaboð og lagt fram beiðni um myndefni gegn gjaldi.
Fyrir ári síðan fékk Grace beiðni um að framleiða svo kallað „feederism“ myndband. Fólk sem aðhyllist „feederism“ örvast kynferðislega að sjá aðra borða, sérstaklega óhóflegt magn af mat í einu og sá sem vill „fóðra“ vill oftast sjá manneskjuna þyngjast í kjölfarið.
Grace kynnti sér málið áður en hún samþykkti beiðnina.
„Ég endaði með að taka upp fyrsta myndbandið af mér borða spagettí, mjög nálægt myndavélinni. Það var ekkert kynferðislegt við það,“ segir hún við News.com.au.
Síðan þá hefur hún fengið fleiri beiðnir frá sama viðskiptavini, en líka frá öðrum aðdáendum með sama blæti. Hún hefur þénað vel á þessu, hún fékk meðal annars rúmlega 90 þúsund krónur fyrir tíu mínútna myndband af sér undirbúa máltíð og borða hana.
Grace viðurkennir að þó það sé ekkert kynferðislegt við myndbandið, að hennar mati, þá stynji hún meira og slafri á meðan hún borðar. En sumir áskrifendur hafa beðið hana um að ljúka myndbandinu með sjálfsfróun.
„Mér finnst gaman að búa til þessi myndbönd. Ég elska að borða, hver elskar ekki að borða, og hvað þá pasta,“ segir hún.
Grace segir að þó hún njóti þess að búa til svona efni þá sé hún meðvituð um að það séu skuggahliðar við „feederism.“ Blætið er stundum tengt við ofbeldi, en það getur verið ráðandi í sumum samböndum þar sem annar aðilinn „fóðrar“ hinn svo mikið að manneskjan hættir að geta gengið og hugsað um sig án aðstoðar aðilans sem fóðrar hana.
Kona að nafni Rose steig fram fyrir tæplega ári síðan. Hún var tæld (e. groomed) af manni sem aðhylltist „death feederism“. Eins og nafnið gefur til kynna þá reyndi maðurinn að láta hana borða svo mikið að hún myndi deyja. Henni tókst að komast undan og opnaði sig um upplifun sína í hlaðvarpsþættinum We‘er All Insane.
Grace segir að hún sé meðvituð um þessa hlið af „feederism“ og segir að það sé mikilvægt að fólk fari varlega þegar kemur að öfgakenndum blætum. Hún hvetur fólk til að vita eigin mörk og vera skýrt með það.
„Feederism getur verið hættulegt. Það getur alið af sér átröskun, og ég myndi aldrei vilja auglýsa það eða vekja athygli á því,“ segir Grace.
Hún setur viðskiptavinum sínum mörk og segir að heilsa og velferð hennar sé alltaf í forgangi.
„Ég mun aldrei fara yfir eigin mörk. Ég mun aldrei láta mig sjálfa borða það mikið að ég verði veik. Ég borða ekki ákveðna hluti því ég er grænkeri. Ég ætla ekki að sitja hérna og borða Big Mac þar til ég æli,“ segir hún