„Smá flandur á hjólahvíslaranum út þennan mánuð. Aðstoðarforstjórinn, Svavar Georgsson vaktar borgina þangað til og tekur við skilaboðum og ábendingum,“ segir hjólahvíslarinn Bjartmar Leósson í Facebook-hópnum Hjóladót o. fl. – Tapað, fundið eða stolið. Birtir Bjartmar með mynd af sér um borð í flugvél, en gefur lítið upp um hvert hann er að fara.
Bjartmar hélt í frí síðastliðinn mánudag og var leiðin framundan löng; Búdapest, Seoul, Ástralía og Vanuatu. „Félagi minn, Marcel Marek, fékk nóg af að vinna mikið og bera lítið úr býtum, dreymir um rólegra líf. Hann sá myndband um Vanuatu og áður en hann vissi af hafði hann keypt land hér. Hann seldi húsið sitt heima í Grindavík eftir jarðskjálftana, greiddi allar skuldir og situr uppi með nokkuð fé til að geta byggt hús hér. Honum vantaði bara góðan félaga með sér til að taka þetta allt út,“ segir Bjartmar í samtali við DV.
„Skrapp í smá ferðalag með Marcel Marek og kærustunni hans. Bara ca 50 tíma ferðalag, þar á meðal tvö 10 tíma flug. Þetta er semsagt eyjasvæðið Vanuatu milli Ástralíu og Nýja Sjálands. Hér ætla þau að koma sér fyrir og hver veit hvort ég bætist kannski í hópinn einn daginn. Ég gæti alveg vanist þessu…,“ segir Bjartmar í færslu á Facebook.
„Svavar Georgsson hefur tekið við stýrinu. Hann er búinn að vera mjög aktífur að sækja hluti og fara með niður á stöð,“ segir Bjartmar.
Bjartmar segir hjólabrasið allt Marcel að þakka. „Hann var búinn að eyða miklum peningum í bílaviðgerðir og átti lítinn pening og ákvað að fara í Háspennu við Hlemm og láta reyna á heppnina. Hann hringdi í mig og bað mig að hitta sig þar og þar fann ég fyrstu þrjú stolnu hjólin, splunkyný hjól. Þar tendraðist neistinn fyrir þessu öllu saman hjá mér og boltinn fór að rúlla. Og ég sogaðist inn í þetta hjóladæmi. Þannig að þetta er allt Marcel að kenna, ég held að þetta hefði ekki orðið að veruleika nema fyrir hann. Það er honum að þakka að þetta hjóladæmi fór allt af stað.“