Ísland mætir Svartfellingum hér heima í kvöld og Tyrkjum ytra á mánudag. Arnar kveðst spenntur fyrir að fylgjast með Strákunum okkar og telur liðið hafa tekið góð skref undanfarið með yngri leikmenn í fararbroddi.
„Landsliðið okkar er virkilega spennandi þessa dagana. Mér finnst við vera á svipuðum slóðum og rétt eftir að Óli Jó var með liðið, þegar gullkynslóðin var að koma upp. Það eru ótrúlega spennandi leikmenn þarna. Það vantar einn hafsent til að þetta lið verði fullkomið næstu tíu árin. Það er ekki verið að tjalda til einnar nætur, leikmenn eru það ungir og farnir að spila með sterkum liðum. Það er komin góð reynsla í þessa stráka svo ég gríðarlega spenntur fyrir hönd þjóðarinnar,“ sagði Arnar.
Hann var spurður nánar út í stöðuna á íslenskum miðvörðum.
„Við erum ekki með slaka miðverði. Það bara vantar þessa týpu sem við vorum að treysta á þegar við vorum að ná hvað bestum árangri. Að vera með hafsentapar sem þekkir hvorn annan inn og út veitir svo mikið öryggi. Við erum með toppmarkmenn og framherjana okkar og miðjumennina okkar, það er hryggjasúlan og þá ertu komin með jólatréð og þá þarftu bara að skreyta það með nokkrum jólakúlum.“
Nánari umræða um landsliðið í Íþróttavikunni er í spilaranum.