Þetta gerir hún til að kenna börnunum að fara betur með peninga og undirbúa þau betur áður en þau fara sjálf að huga að fjárhagslegum skuldbindingum.
Budget with Milly heitir umrædd síða á TikTok en þar segir móðirin, Milly, frá því að börn hennar geti unnið sér inn fimm pund í viku fyrir að hjálpa til við hin hefðbundnu verkefni sem sinna þarf á heimilinu.
Í hverri viku er svo eitt pund dregið frá fyrir leigu, eitt pund fyrir mat og eitt pund frá fyrir notkun á húsbúnaði heimilisins og fylgihlutum. Í hverri viku hafa börnin því tvö pund í afgang í einskonar vasapening. Til glöggvunar má benda á að eitt pund jafngildir 183 íslenskum krónum.
„Áður en þau ákveða að eyða þessum tveimur pundum spyrjum við þau hvort þau hafi efni á því sem þau langar að kaupa sér, hvort þetta sé eitthvað sem þau langar í eða þurfi og hvort þau telji sig verða ánægð með kaupin í náinni framtíð.“
Milly segir að þetta geri þau til að koma í veg fyrir það sem kalla mætti „tilfinningaleg skyndikaup“ þar sem skyndilegri löngun í að kaupa einhvern hlut, til dæmis sælgæti, er svalað án mikillar umhugsunar.
Milly bendir á að börn hafi ekki ýkja mikið fjármálalæsi og þar megi skólarnir koma sterkari inn. Ákvað Milly því að taka þetta í eigin hendur og segir hún að árangurinn hafi verið góður, þetta fyrirkomulag hafi gefist mjög vel fyrir alla í fjölskyldunni.
Eins og bent er á í umfjöllun Mirror eru sumir á því að Milly gangi ef til vill of langt þegar hún kennir börnunum sínum fjármálalæsi með þessum hætti. „Þetta er eitthvað sem mætti gera þegar börnin eru komin á unglingsárin en ekki þegar þau eru svona ung,“ segir til dæmis einn í gagnrýni sinni.
Aðrir eru þó á því að þetta sé mjög góð leið til að kenna börnum að sýna ábyrgð á eigin fjárhag.
@budgetwithmillyThe best way to teach kids about money🥰