Grunnskólanemandinn Oddur Bjarni Bergvinsson leggur til að matseðill, sem hann kallar SKVÓP, verði innleiddur í grunnskólum landsins. Það myndi létta líf fjölskyldna í landinu.
„Mig langar að koma með þá tillögu að allir grunnskólar landsins taki upp þennan matseðil,“ segir Oddur Bjarni, sem er 15 ára og nemandi við Grunnskólann í Vestmannaeyjum, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær.
Leggur hann til matseðil sem hann kalla SKVÓP, en það er skammstöfun á þeim mat sem hafður er á hverjum degi.
„Ég var í spænskuskóla í sumar og kynntist þar stelpu frá Þýskalandi. Í hennar skóla er alltaf sama tegund af mat á vissum degi, t.d. fiskur á fimmtudögum og vegan á þriðjudögum. Nú þegar maturinn verður ókeypis er enn mikilvægara að foreldrar skrái ekki börnin sín í mat þegar þau vita að þau verði ekki í mat á ákveðnum dögum,“ segir Oddur Bjarni sem áður hefur látið að sér kveða og skrifað greinar í blöð.
Með hinum svokallaða SKVÓP matseðli verður alltaf sama tegundin af mat á ákveðnum vikudögum í skólanum. Þetta eru:
Mánudagur: Sjávarréttur (fiskur).
Þriðjudagur: Kjöt.
Miðvikudagur: Vegan.
Fimmtudagur: Ódýr matur (spónamatur).
Föstudagur: Partímatur (hamborgarar, pitsa, takó o.s.frv.).
„Það er leiðinlegt þegar það er t.d. fiskur í hádeginu og líka heima um kvöldið sama dag, en ef foreldrarnir vita hvað er í matinn þennan og hinn daginn er hægt að samræma skólamatinn og kvöldmatinn,“ segir Oddur Bjarni sem hefur ekki látið það duga að senda grein í Moggann. „Ég hef komið þessari tillögu áfram til míns skóla sem og sent nýjum forseta okkar, Höllu Tómasdóttur, bréf og beðið hana að hjálpa við að koma þessari hugmynd áfram.“