fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Hvaða fólk verður í framboði fyrir Miðflokkinn? – Flokkurinn orðinn sá næst stærsti í könnunum

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 1. september 2024 12:00

Miðflokkurinn á aðeins tvo þingmenn í dag þannig að það verða mörg laus pláss á listum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miðflokkurinn mælist nú stærri í skoðanakönnunum en Sjálfstæðisflokkurinn. Það er 15,3 prósent á móti 13,9 í könnun Maskínu þann 28. ágúst. Eins og hjá Samfylkingu er búist við því að Miðflokkurinn bæti við sig verulegu fylgi í næstu alþingiskosningum og þar af leiðandi mörgum nýjum þingmönnum.

Eftir Klausturs-skandalinn tapaði Miðflokkurinn miklu fylgi í alþingiskosningunum árið 2021. Fékk hann aðeins þrjá menn kjörna og minnstu munaði að flokkurinn þurrkaðist út. Eftir kosningarnar gekk einn þremenninganna, Birgir Þórarinsson, úr skaftinu og gerðist sautjándi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Nú er hins vegar öldin önnur. DV leit yfir sviðið í leit að nýjum þingmönnum Miðflokksins.

Vildu verða forsetar

Það nafn sem hefur hvað helst verið nefnt í tengslum við framboð hjá Miðflokknum er lögmaðurinn Arnar Þór Jónsson. Arnar Þór bauð sig fram til forseta og hlaut 5 prósent fylgi í kosningunum í júní. Arnar Þór var áður varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og segist nú íhuga að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Flestum er það hins vegar augljóst að íhaldssöm stefna hans fer ágætlega saman við stefnu Miðflokksins.

Arnar Þór hefur sagst hafa áhuga á að stofna nýjan stjórnmálaflokk. En nær Sigmundur Davíð að tala hann til?

Annar forsetaframbjóðandi hefur einnig verið orðaður við framboð fyrir Miðflokkinn. Það er Guðmundur Franklín Jónsson. Guðmundur Franklín, eða Gúndi eins og hann er stundum kallaður, bauð sig óvænt fram gegn Guðna Th. Jóhannessyni árið 2020. Hann fékk betri kosningu en Arnar Þór, það er um 7 prósent.

Fólk í flokknum

Miðflokkurinn er ekki sterkur á sveitarstjórnarstiginu og tapaði mörgum sætum í kosningunum árið 2022, til að mynda öllum fulltrúunum á höfuðborgarsvæðinu.

Stórsigur flokksins í Grindavík var hins vegar eftirtektarverður, en þar fékk flokkurinn rúmlega 32 prósenta fylgi og 3 af 7 fulltrúum kjörna. Vegna þessa hlýtur Hallfríður Hólmgrímsdóttir oddviti listans að koma til greina í Suðurkjördæmi.

Á Akureyri tókst fulltrúa Miðflokksins, Hlyni Jóhannssyni hins vegar að komast í meirihluta með Sjálfstæðismönnum og L-lista. Hægt er því að fullyrða að Hlynur sé valdamesti Miðflokksmaður landsins.

Hlynur er valdamesti Miðflokksmaðurinn.

Sá mest áberandi er hins vegar án nokkurs vafa Þröstur Jónsson í Múlaþingi. Hann hefur marg oft komist í fjölmiðla vegna hatrammra deilna í bæjarstjórn, einkum vegna vanhæfismála.

Annað fólk, sem gengt hefur stöðum fyrir flokkinn, kemur vitaskuld til greina. Meðal annars Tómas Ellert Tómasson fyrrverandi bæjarfulltrúi í Árborg, Þorsteinn Sæmundsson fyrrverandi þingmaður, Þorgrímur Sigmundsson varaþingmaður,  Jón Þór Þorvaldsson fyrrverandi varaþingmaður og síðast en ekki síst Vigdís Hauksdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi. Einnig tónlistarmaðurinn Jón Sigurðsson, títt nefndur fimm hundruð kallinn, sem keppti í Idol stjörnuleit um árið en hann hefur starfað innan Miðflokksins og sér máske gott tækifæri til að springa út á nýjan leik.

Liðsauki úr óvæntri átt

Þá er einnig góður möguleiki að Miðflokkurinn fái liðsauka, eða réttara sagt liðhlaupa, úr öðrum flokkum. Einkum Sjálfstæðisflokknum þar sem sæti á framboðslista er ekki jafn öruggt þingsæti og það var áður. Fastlega má gera ráð fyrir að Birgir Þórarinsson sé ekki velkominn aftur en nokkur önnur nöfn koma til greina.

Augljósasta dæmið er Jón Gunnarsson. Jón hefur verið mjög gagnrýninn á núverandi stjórnarsamstarf, svo gagnrýninn að það hefur verið til vandræða fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins. Jón fer heldur ekki leynt með það að hann var fúll yfir því að missa ráðherrastólana, í bæði skiptin sem hann missti þá. Með Jón Gunnarsson í oddvitasæti í Suðvesturkjördæmi getur Miðflokkurinn höggvið stórt skarð í höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins.

Annar þingmaður sem hefur ekki fyllilega gengið í takt við stefnu flokksforystunnar er Ásmundur Friðriksson. Ásmundur hefur einnig sóst eftir að leiða lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi en ekki haft erindi sem erfiði. Hann myndi væntanlega fá oddvitasætið hjá Miðflokknum ef hann myndi sækjast eftir því.

Ásmundur hefur oft farið sínar eigin leiðir.

Þriðja nafnið sem vert er að minnast á er Diljá Mist Einarsdóttir. Diljá hefur verið talin frekar í liði Guðlaugs Þórs en Bjarna og flokksforystunnar í valdabaráttunni í Valhöll. Hún er einnig strangtrúuð og veigrar sér ekki að taka slaginn í svokölluðum sjálfsmyndarstjórnmálum (identity politics) eins og nýlegur barningur hennar við femínista sýnir. En það fer ekki á milli mála að Sigmundur Davíð lítur vestur um haf til Bandaríkjanna til að flytja þess konar stjórnmál inn.

Þá er einnig vert að nefna ýmsa fyrrverandi þingmenn sem gætu reynt að komast aftur inn á leikvöll stjórnmálanna, en undir öðrum merkjum. Til að mynda Frosta Sigurjónsson, sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn þegar Sigmundur Davíð var þar við völd. Frosti var áberandi þingmaður í þann stutta tíma sem hann sat og hefur látið til sín taka síðan að hann hætti, einkum í tengslum við orkumál, það er baráttu gegn orkupakka 3 og vindmyllugörðum. Einnig mætti nefna Sjálfstæðismennina Brynjar Níelsson og Jón Magnússon, en hinn síðarnefndi sat einnig fyrir Frjálslynda flokkinn.

Tala gegn rétttrúnaði

Ýmis önnur nöfn, ekki tengd flokkastjórnmálum, koma vel til greina. Sér í lagi nafn Helga Magnúsar Gunnarssonar, vararíkissaksóknara sem hefur staðið í ströngu til að halda atvinnu sinni eftir umdeild ummæli um útlendinga. Sigmundur Davíð hefur staðið þétt við bakið á Helga Magnúsi og Helgi Magnús stutt hann og Miðflokkinn til baka, eins og sést á samfélagsmiðlum. Helgi Magnús gæti hæglega orðið dómsmálaráðherraefni flokksins í komandi kosningum.

Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, er annað nafn sem vert er að hafa í huga. Haraldur hefur talað gegn aktívistum í loftslagsmálum, eitthvað sem rímar vel við málflutning Sigmundar Davíðs og Miðflokksins.

Er tími Björns Inga kominn?

Nokkrir fjölmiðlamenn koma einnig til greina. Meðal annars Snorri Másson og Frosti Logason, sem báðir störfuðu áður hjá Sýn en hafa síðan stofnað eigin fjölmiðla þar sem skorin er upp herör gegn svokallaðri pólitískri rétthugsun. Einnig Björn Ingi Hrafnsson, sem farið hefur mikinn í fjölmiðlum undanfarin misseri í að spá ríkisstjórninni falli. Um það leiti sem Miðflokkurinn var að fæðast, eftir Wintris málið og klofninginn í Framsóknarflokknum, var greint frá því að Björn Ingi væri í samstarfi við Sigmund Davíð. Það samstarf hefur hins vegar ekki raungerst í framboði hins fyrrnefnda fyrir flokkinn, enn þá.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði