Þegar skólarnir hefjast er ágætt að muna að lífið er einn samfelldur skóli. Harður skóli að því leyti að ef maður lærir ekki af reynslunni fær maður sömu kennslustund endurtekna í nýjum og nýjum búningi þar til maður hefur skilið námsefnið, séð hvar manni yfirsást og hvar maður verður að horfst í augu við sjálfan sig, vankanta sína og veikleika og gera bragarbót á. Í skóla lífsins er ekkert sem heitir að hoppa upp um bekk, því miður, en það er auðvelt að sitja eftir.
Margir reyna þó að taka hraðbrautina og sjálf hef ég reynt það endurtekið, haldið mig fullnuma og af sérhlífni setið sömu kennslustundina með aðeins breyttu kennsluefni.
Það er auðvelt að reyna að flýja skólaskylduna því það útheimtir sjálfsskoðun og nokkurn aga að mæta námsefninu og skilja það til fulls. Það er á hinn bóginn óumflýjanlegt að maður uppskeri endurtekninguna ef maður tekur námið ekki nægilega alvarlega. Maður gapir jafnvel af undrun. Er ég í alvöru að ganga í gegnum þetta! Aftur?
En svo verður sú undrun eftir nokkra endurtekningar undarlega kunnugleg og þreytandi og kannski þá auðnast manni að skilja að lífslexían sú sem maður er að reyna að sleppa við útheimtir heimavinnu, nokkuð sem allir vita að verður aðeins unnin af manni sjálfum. Það lærir enginn fyrir mann.
Tilveran er merkilega kenjótt og stríðin því oft höldum að við getum forðast að mæta okkur sjálfum í lífsins skóla. Flóttanum fylgir valkvæð blinda, því þó merkin séu töluvert skýr, lítum við glaðbeitt fram hjá þeim, því vonin um að sleppa við kennslustundina er öllu yfirsterkari. Hin stríðna vitund heimsins mælir þetta líka upp í okkur, því ef við erum í algjörri afneitun eða bara alls ekki tilbúin fyrir námsefnið, kemur námsefnið svo spánskt fyrir sjónir að maður trúir því einhverja stund að nú sé maður kominn í framhaldsnám og hafi loks lokið mikilvægum lexíum.
Margt í umhverfi okkar stuðlar að þessari námstregðu og skrópsýki. Það er her sérfræðinga sem hefur atvinnu af því að ýta undir þá trú að einhver, eitthvað geti bjargað þér úr skólanum eða tekið fyrir þig prófið. Nóg er af þeim sem vilja selja þér eitthvað sem gerir þér námið auðveldara, léttara og skyndilausnir ýmiskonar hljóma oft ótrúlega vel, þar til að þú kemst að hinu gagnstæða.
Allt sem við forðumst að mæta í eigin lífi eða í eigin fari finnur sér leið upp á yfirborðið. Stundum eru það óuppgerðar tilfinningar sem sýna sig fyrirvaralítið, stundum eru það mannlegir brestir sem láta kræla á sér við að því er virðist engin tilefni. Ólokin heimavinnan bíður alltaf á borðinu og enginn sem getur klárað hana nema þú sjálfur.
Maður hleypur ekki frá hálfkláruðu sjálfsnámi þótt maður sigri aðra í maraþoninu. Að maraþoninu loknu er það ókláraða í skóla lífsins enn við sinn keip. Maður flýr ekki sjálfan sig þótt ýmsar verði vegtyllurnar. Þegar upp er staðið er það sem ekki hefur verið vaskað upp enn óþvegið.
Slagurinn við sjálfið og kennslustundir lífsins geta orðið mjög nálægar og ágengar. Stundum er það svo að maður verður bara að setjast við heimalærdóminn. Það útheimtir að leggja við hlustir, líta í eigin barm, taka ekki á flótta, skorast ekki undan, gera ekki aðra ábyrga, axla ekki ábyrgð á neinu því sem færir manni þá fjarvistarsönnun að maður sé þá stikkfrí frá eigin heimaverkefnum.
Ef sálarlífið er í fokki, breytir engu hvort þú gerist grænmetisæta, flytjir til útlanda, stundir líkamsrækt, bjargir mannslífi, eignist nýjan bíl eða nýjan maka. Enginn getur raunverulega lagað sálina nema maður sjálfur. Glatað, en því miður staðreynd.
Það skyldi ekki líta á ókláraða heimavinnu sem eintóma kvöð heldur leið að betri líðan. Góður félagi sagði við mig : Maður verður að reyna að hafa gaman að glímunni við sig sjálfan. Líttu á það sem leik. Hver verðurðu þegar þú ert búin að takast á við þetta?