Sparkspekingurinn og fyrrum landsliðsmaðurinn Lárus Orri Sigurðsson furðar sig á þeim útskýringum sem Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, gaf fyrir því að Aron Einar Gunnarsson væri ekki í leikmannahópi Íslands fyrir leiki gegn Svartfjallalandi og Tyrklandi í Þjóðadeildinni.
Aron var ekki valinn í hópinn sem Hareide kynnti í gær. Hann gekk í raðir uppeldisfélagsins Þórs, sem spilar í Lengjudeildinni á dögunum. „Hann verður að koma sér í form til að geta komið sér í landsliðið, hann verður að spila á hærra getustigi en hjá Þór ef hann ætlar að koma í landsliðið,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í gær.
Lárus furðaði sig þó á þessu ef marka má færslu hans á X (áður Twitter). Hann bendir þar á að Aron hafi verið valinn í leiki gegn Lúxemborg og Slóvakíu í fyrra þegar hann var ekkert að spila með félagi sínu, Al-Arabi.
„Oft erfitt að lesa í skilaboðin sem koma frá íslenska landsliðsþjálfaranum um netheim frá norska garðskálanum hans. En get ekki betur skilið núna en að það sé betra fyrir Aron Einar að spila ekkert en að spila með Þór ef hann vill láta velja sig í landsliðið e.g. Isl-Lux Svk-Isl,“ skrifar Lárus.
Sem fyrr segir samdi Aron við Þór á dögunum og hefur hann spilað síðustu leiki. Það eru þó allar líkur eru á því að hann fari þó erlendis á næstu dögum. Hann er með möguleika í Belgíu og í Katar og færi þá á láni frá Þór.
Oft erfitt að lesa í skilaboðin sem koma frá íslenska landsliðsþjálfaranum um netheim frá norska garðskálanum hans. En get ekki betur skilið núna en að það sé betra fyrir Aron Einar að spila ekkert en að spila með Þór ef hann vill láta velja sig í landsliðið e.g. Isl-Lux Svk-Isl
— Lárus Sigurðsson (@larussig) August 28, 2024