fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Svona ríkisstjórn vill Kristrún mynda

Eyjan
Miðvikudaginn 28. ágúst 2024 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar er gestur í nýjasti þætti hlaðvarpsins Chess After Dark en það er í umsjá Birkis Karls Sigurðssonar og Leifs Þorsteinssonar. Í þættinum er farið yfir víðan völl og Kristrún meðal annars spurð hvaða flokkum hún vilji helst að Samfylkingin vinni með í ríkisstjórn en Kristrún segist ekkert hafa farið í grafgötur með hvers konar ríkisstjórn hún vilji mynda. Hugur hennar leiti helst til mið-vinstri stjórnar og að eitthvað mikið þurfi að breytast til að það geti gengið upp að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn myndi saman ríkisstjórn.

Samfylkingin hefur eins og kunnugt er verið stærsti flokkurinn í könnunum um nokkurt skeið en viðtalið var tekið og birt áður en glæný skoðanakönnun Maskínu var birt nú fyrr í kvöld. Samkvæmt henni er Samfylkingin enn stærst með 25,5 prósent fylgi en Miðflokkurinn orðinn næststærstur með 15,3 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í þriðja sæti með 13,9 prósent.

Kristrún er spurð í viðtalinu hvaða flokkum hún myndi helst vilja mynda ríkisstjórn með:

„Ég vill vinna með flokkum sem að styðja minn málefna-fókus.“

Aðspurð hvaða flokkar það séu svarar Kristrún:

„Ég hef alveg sagt það. Ég vil mynda mið-vinstri stjórn. Það er það sem ég vil gera. Til þess þarf Samfylkingin auðvitað að byrja á að verða mjög stór.“

Samstaða en líka ágreingingur

Þegar henni er bent á að vinstri flokkar aðrir en Samfylkingin hafi ekki notið sérstaklega mikils fylgis í könnunum bendir Kristrún á að tryggð við flokka sé ekki eins mikil og áður.

„Kannski á ég ekki að segja þetta sem manneskja sem er í stjórnmálaflokki. Þorri landsmanna … eða ekkert mjög margir eru eitthvað: ég er hér á hinu pólitíska rófi. Pólitíska rófið á Íslandi er líka mjög þröngt. Þetta er kannski eitthvað sem er óvinsælt að segja og sem stjórnmálamaður á ekki að segja. Þetta er að mörgu leyti einsleitt samfélag. Það er samstaða hérna og við erum lítil þjóð. Fólk er ekkert með mjög ólíkar skoðanir á ákveðnum hlutum.“

Kristrún segir þetta þó ekki svo einfalt:

„Það er vissulega ágreiningur. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. En punkturinn minn er kannski sá að það er fullt af fólki sem hefur komið upp að mér og hugsað að það myndi aldrei kjósa vinstri flokka en er samt sammála öllu eða mörgu sem ég segi. Það er ekki af því að það sé eitthvað voðalega hægri sinnað.“

Kristrún gerir því næst nánari grein fyrir hvað hún vilji sjá í hugsanlegum samstarfsflokkum í ríkisstjórn:

„Ég vil vinna fyrst og fremst með flokkum sem geta tekið undir þessar lykiláherslur okkar í heilbrigðismálunum, húsnæðismálunum, efnahagsmálunum.“

„Það mun standa og falla með hvað þeir flokkar eru stórir.“

Spenntari fyrir Reykjavíkurmódelinu en Sjálfstæðisflokknum

Aðspurð hvort hún væri frekar til í ríkisstjórn með sömu flokkum og Samfylkingin starfar með í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, Viðreisn, Pírötum og Framsóknarflokknum, nægi samanlegt fylgi þeirra í næstu kosningum, eða frekar í tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum segir Kristrún:

„Það þarf eitthvað mikið að gerast í Sjálfstæðisflokknum til þess að við yrðum ekki í rauninni sett í þá stöðu að yfirgefa okkar stóru málaflokka, ef ég er alveg hreinskilin við ykkur. Ég hef samt líka sagt það að ef það myndu verða einhverjar stórkostlegar breytingar í Sjálfstæðisflokknum sem myndu gera það að verkum að þeim myndi finnast allt frábært sem ég væri að segja, í grundvallaratriðum og gætu stutt það. Þá væri það grundvallarbreyting.“

Þegar kemur að Reykjavíkurmódelinu segir Kristrún að innan þess séu flokkar sem hún gæti vel hugsað sér að mynda ríkisstjórn með þar sem þeir standi Samfylkingunni nokkuð nærri, þegar kemur að helstu stefnumálum hennar. Nefnir hún þar sérstaklega Framsóknarflokkinn og Viðreisn.

„Þetta eru flokkar sem eru ekkert langt frá okkur.“

Kristrún segir að henni myndi hugnast að einhverju leyti að færa Reykjavíkurmódelið yfir á Alþingi en minnir á að þessi samsetning taki fyrst og fremst mið af ástandinu í Reykjavík. Málefnin á landsvísu séu með aðeins öðruvísi hætti en á sveitarstjórnarstiginu. Hún segist skilja vel að fólk vilji nánari upplýsingar um hvert hugurinn leitar þegar kemur að ríkisstjórnarsamstarfi:

„Það eina sem ég get sagt um þetta .. af því að mér finnst bara ekki … ég veit ekkert hvað kemur upp úr kössunum, ekki bara hjá mér heldur hjá öðrum flokkum.“

Kristrún segir lykilatriði að Samfylkingin standi vörð um sín grundvallarstefnumál. Gefi flokkurinn þau eftir til að komast í ríkisstjórn sé pólitískum ferli hennar sjálfrar lokið og sömuleiðis sögu Samfylkingarinnar.

Viðtalið í heild má heyra hér fyrir neðan:

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“