fbpx
Þriðjudagur 27.ágúst 2024
Pressan

Birta myndir af líkum fórnarlamba fjöldamorðs bandarískra hermanna

Pressan
Þriðjudaginn 27. ágúst 2024 22:00

Gólf voru blóði drifin eftir fjöldamorð bandarískra landgönguliða á samtals 24 almennum borgurum í Haditha í Írak árið 2005. Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríska frétta- og menningartímaritið The New Yorker birti fyrr í dag umfjöllun á vefsíðu sinni um fjöldamorð sem bandarískir landgönguliðar (e. marines) frömdu í bænum Haditha í Írak 19. nóvember árið 2005. Urðu þeir 24, óvopnuðum og varnarlausum, almennum íröskum borgurum að bana þennan dag. Hin myrtu voru karlar, konur og börn. Með umfjölluninni eru birtar myndir af líkum hluta hinna látnu en á myndunum má sjá lík til að mynda barna sem voru skotin í höfuðið. Landgönguliðið sjálft tók myndirnar en hélt þeim leyndum allt þar til The New Yorker og hlaðvarpinu In the Dark, sem helgað er rannsóknarblaðamennsku, tókst að fá þær afhentar með fulltingi dómstóla og aðstandenda hinna látnu.

Umfjöllunina ritar fréttakonan Madeleine Baran en hún er einnig þulur hlaðvarpsins en nýjasta þáttaröð þess er helguð þessu máli sem Baran og samstarfsfólk hennar hefur rannsakað síðustu 4 ár. Í hlaðvarpinu er meðal annars rætt við aðstandendur hinna myrtu og sýnt fram á að fullyrðingar landgönguliðanna um að þeir hafi verið að verja sig gegn vopnuðum uppreisnarhópi standist ekki.

Þess ber að minnast að Bandaríkin réðust inn í Írak árið 2003 og hröktu einræðisherrann Saddam Hussein frá völdum. Næstu árin börðust bandarískir hermenn við vopnaða uppreisnarhópa.

Í umfjölluninni í The New Yorker eru helstu angar málsins, sem fram hafa komið í hlaðvarpinu, raktir.

Hefnd?

Að morgni þessa dags varð bílalest landgönguliða í bænum fyrir vegsprengju með þeim afleiðingum að einn landgönguliði lést. Landgönguliðarnir myrtu í kjölfarið fimm menn sem voru á leið í bíl til höfuðborgarinnar Bagdad og héldu því næst inn í þrjú nærliggjandi hús og myrtu þar alls 19 manns, á aldursbilinu 3-76 ára.

Rannsókn fréttamannanna hefur leitt í ljós að enginn hinna látnu voru uppreisnarliðar eins og landgönguliðarnir héldu fram. Hvers vegna landgönguliðarnir beindu spjótum sínum að þessum tilteknu einstaklingum er óljóst en mögulega hafa þeir viljað hefna á einhvern hátt fyrir dauða landgönguliðans sem lést vegna vegsprengjunnar, með því að myrða hvaða Íraka sem er. Hugleiðingar um slíkt eru þó á þessu stigi aðeins getgátur.

Að morðunum í húsunum þremur yfirstöðnum tóku landgönguliðar, sem ekki tóku þátt í voðaverkunum, ljósmyndir á vettvangi þar á meðal af líkum hinna myrtu. Þær myndir hafa aldrei verið birtar opinberlega þar til nú.

Aðstandendur vildu myndirnar fram í dagsljósið

Fjöldamorðin hafa þó alls ekki legið í þagnargildi en málið fékk takmarkaða athygli og það hefur verið meðal annars verið rakið til þess að áðurnefndar myndir hafa aldrei verið birtar opinberlega.

Alls voru fjórir landgönguliðar ákærðir fyrir morð í kjölfar rannsóknar bandarískra löggæslustofnana. Málum þriggja þeirra var vísað frá en einn þeirra Frank Wuterich var dæmdur fyrir að vanrækja skyldur sínar og var lækkaður í tign en hlaut ekki frekar en hinir þrír fangelsisdóm.

Bandaríski herinn beitti einna helst þeim rökum að með því að myndirnar yrðu sýndar opinberlega myndi það skaða mjög aðstandendur þeirra sem sjást á myndunum. Fréttamennirnir fengu hins vegar aðstandendur í lið með sér sem skrifuðu undir lista þar sem þess var krafist að myndirnar yrðu afhentar og var undirskriftalistanum framvísað fyrir dómi. Gaf þá bandaríski herinn eftir og afhenti myndirnar. Eru þær birtar með samþykki aðstandenda þeirra sem á þeim sjást, látin eftir að hafa verið skotin til bana af landgönguliðunum.

Myndirnar umræddu eru neðst í umfjöllun The New Yorker og eru viðkvæmir hér með varaðir við. Í umfjölluninni er hins vegar hluti allra myndanna sem landgönguliðarnir tóku á vettvangi birtur. Á einni þeirra má til að mynda sjá móður liggja í rúmi ásamt fjórum af sex börnum sínum (þau voru 10, 8, 5, og 3 ára gömul). Öll eru þau látin með greinileg skotsár á höfði. Eitt barnanna komst lífs af með því að fela sig nærri rúminu en elsta barnið, 15 ára, var myrt á bak við rúmið.

Umfjöllun The New Yorker með myndunum af líkum hinna myrtu má nálgast hér og hlaðvarpið In the Dark er hægt að finna hér en sex nýjustu þættir þess fjalla um fjöldamorðin í Haditha.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Japanskir flugvellir hafa fengið nóg af þessari plágu

Japanskir flugvellir hafa fengið nóg af þessari plágu
Pressan
Fyrir 2 dögum

Læknir segir að þetta eigi allir að gera í sturtunni til að draga úr stressi

Læknir segir að þetta eigi allir að gera í sturtunni til að draga úr stressi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Neitaði að trúa að móðir hans hefði framið sjálfsvíg – Eyddi öllum arfinum í að koma upp um morðingjann

Neitaði að trúa að móðir hans hefði framið sjálfsvíg – Eyddi öllum arfinum í að koma upp um morðingjann
Pressan
Fyrir 3 dögum

„Í dag ætla ég að stinga alla“

„Í dag ætla ég að stinga alla“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ef engir geitungar væru til myndum við lifa eins og bændur á miðöldum

Ef engir geitungar væru til myndum við lifa eins og bændur á miðöldum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Norður-Kórea opnar landamærin fyrir ferðamönnum

Norður-Kórea opnar landamærin fyrir ferðamönnum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Var í göngutúr þegar ungmennin réðust á hann – „Ég vil ekki búa hér lengur“

Var í göngutúr þegar ungmennin réðust á hann – „Ég vil ekki búa hér lengur“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Segir að ótrúleg mistök hafi verið gerð þegar snekkjan sökk

Segir að ótrúleg mistök hafi verið gerð þegar snekkjan sökk