Árni segir að á árunum eftir hrun, þegar lítið var að gera í hans vanalega starfi, hafi hann tekið tvö ár sem leiðsögumaður, mest í jöklaleiðsögn.
„Í þessum ferðum ofbauð mér oft krafan um að fara með farþegana í sem ævintýralegustu aðstæðurnar. Ef við fórum ekki með fólk í „tvísýnu“ þá vorum við ekki að standa okkur,“ segir Árni sem kveðst hafa starfað fyrir fyrirtæki sem þóttist vera framarlega í öryggismálum og þótti til fyrirmyndar.
„Á sama tíma voru íshellaferðirnar að hefjast og eftir að hafa komið á staði eins og undir fallega ísboga, brúnir eða hella sem voru síðan hrundir daginn eftir langaði mig ekki til að vera í þessum bransa. Vildi ekki vera leiðsögumaðurinn sem missti hóp í íshruni. Ég tjáði mig um þessi öryggismál og var hótað,“ segir Árni og bendir á að jöklar séu óstöðugir og breytist frá degi til dags.
„Það er í lagi að vanir menn fari þangað á eigin forsendum og ábyrgð. En að fara í svona óstöðugt umhverfi með algjörlega óvant fólk er mikið ábyrgðarhlutverk sem því miður fæst (ef nokkur) ferðaþjónustufyrirtæki geta staðið undir. Hugsum málin upp á nýtt. Ferðaþjónustan á ekki að vera áhættustarfsgrein. Hvorki fyrir starfsfólk né farþega.“
Garðar Hrafn Sigurjónsson, varaformaður Félags fjallaleiðsögumanna, sagði við mbl.is í dag að mikilvægast væri að draga lærdóm af þessu slysi sem þurfi að rannsaka af fagmennsku og í þaula.
„Við köllum eftir því að ítarleg rannsókn fari fram fyrir utan hefðbundna lögreglurannsókn. Við erum ekki að benda á fólk en við þurfum fyrst og fremst að læra af því sem ekki fór vel. Og út frá því að laga bæði umgjörð og lagaumhverfi fólks sem vinnur á fjöllum,“ sagði hann meðal annars.