Alls voru 25 ferðamenn af ýmsum þjóðernum á svæðinu þegar hrundi úr hellinum. Viðbragðsaðilar náðu tveimur í gær og var annar þeirra úrskurðaður látinn á vettvangi en hinn var fluttur slasaður með þyrlu á sjúkrahús.
Veður til leitar er gott en aðstæður á jöklinum erfiðar fyrir þá 60 björgunarsveitarmenn og viðbragðsaðila sem eru á vettvangi.
Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, sagði í fréttum RÚV í morgun að þrjú teymi væru að vinna við mokstur og niðurbrot á ís. Þessi teymi vinni klukkutíma í senn. Þá sagði Sveinn að vinna stæði yfir við að bera kennsl á ferðamennina í hópnum en hann sagði í samtali við Vísi í morgun að ekki væri til fullur nafnalisti fyrir hópinn sem fór í skoðunarferðina í gær.