fbpx
Laugardagur 24.ágúst 2024
Fréttir

Sagðist hafa verið hótað niðurlægingu ef hún myndi mæta á fleiri kóræfingar

Ritstjórn DV
Laugardaginn 24. ágúst 2024 15:00

Kærunefnd jafnréttismála heyrir undir forsætisráðuneytið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd jafnréttismála hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli konu sem lagði fram kæru á þeim grundvelli að hún hefði verið hrakin úr kór sem hún var meðlimur í. Vildi konan meina að kórstjórinn hefði hótað henni á þann hátt að um brot á lögum væri að ræða. Nefndin vísaði kæru konunnar hins vegar frá.

Ekki kemur fram í úrskurðinum um hvaða kór er að ræða. Sagði konan framkomu kórstjórans gagnvart sér vera brot á lögum um jafnan rétt utan vinnumarkaðar.

Segir í úrskurðinum að konan segi kórstjórann hafa hótað sér í síma „vanvirðingu og niðurlægingu“ mætti hún á fleiri æfingar hjá kórnum og að hann hygðist beita sambýlismanni hennar í því skyni. Konan segi að þetta símtal hafi komið henni í opna skjöldu og hún líti á það sem brottrekstur úr kórnum. Líti hún svo á að um hafi verið að ræða áreitni í skilningi laganna um jafnan rétt utan vinnumarkaðar. Þá hafi konan tekið fram í kæru sinni að eina raunhæfa krafan sem hún geti gert sé að krefjast afsökunarbeiðni frá kórstjóranum vegna ólögmætrar framkomu í hennar garð.

Sá galli var hins vegar á gjöf Njarðar að kæra konunnar var ekki nógu skýr. Í úrskurðinum kemur fram að með tölvupósti var konunni gefinn kostur á að gera nánari grein fyrir efni kærunnar. Jafnframt var athygli hennar vakin á því að áreitni yrði að tengjast einhverjum þeim þáttum sem um getur í áðurnefndum lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar til þess að kærunefndin gæti tekið málið til umfjöllunar. Með tölvupósti svaraði konan þessu erindi nefndarinnar þannig að hún héldi kærunni óbreyttri til streitu.

Verði að liggja fyrir

Málið náði því einfaldlega ekki svo langt að kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir sjónarmiðum þess aðila sem heldur kórnum úti. Í niðurstöðu nefndarinnar er vísað til títtnefndra laga um jafnan rétt utan vinnumarkaðar. Þar sé áreitni, sem konan vildi meina að hún hefði mátt þola, skilgreind á eftirfarandi hátt:

„Sem hegðun sem tengist kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.“

Nefndin segir að af kæru konunnar megi ráða að hún telji framkomu kórstjórans fela í sér áreitni í skilningi þessa ákvæðis laganna. Segir í úrskurðinum að jafnvel þótt framkoma kórstjóra geti verið vanvirðandi eða niðurlægjandi að mati kórfélaga verði að liggja fyrir upplýsingar sem tengjast þeim þáttum sem getið er um í þessu ákvæði laganna til að nefndin geti tekið málið til meðferðar. Engar slíkar upplýsingar liggi fyrir þrátt fyrir að farið hafi verið þess á leit við konuna að bæta úr því.

Þar af leiðandi komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að ekki væri annað mögulegt en að vísa kæru konunnar frá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eldgosið í jafnvægi
Fréttir
Í gær

Gos er hafið á Reykjanesi

Gos er hafið á Reykjanesi
Fréttir
Í gær

Ekki fjölskyldutengsl milli grunaða og hjónanna á Neskaupstað

Ekki fjölskyldutengsl milli grunaða og hjónanna á Neskaupstað