Allt byrjaði þetta þegar hún var að kynna nýjustu kvikmynd hennar, It Ends With Us. Myndin er byggð á samnefndri bók eftir Colleen Hoover sem fjallar um heimilisofbeldi. Lively fer með aðalhlutverkið á móti leikaranum Justin Baldoni, sem leikstýrir einnig myndinni.
Bókin sló í gegn á sínum tíma og hafa því aðdáendur beðið spenntir eftir myndinni. Þeir voru fljótir að taka eftir því að leikararnir sáust aldrei saman á viðburðum fyrir myndina og fór fljótlega sú kjaftasaga að ganga að Baldoni hafi gert henni eitthvað. Hann byrjaði að missa fylgjendur á samfélagsmiðlum en síðan breyttist sagan og fóru netverjar að flykkjast í lið með Baldoni.
Sögur af tökustað fóru í fjölmiðla, þar sem Lively átti að hafa látið illa. Síðan fór fólk að bera saman viðtölin hennar í kynningarherferðinni við viðtöl Baldoni, en á meðan hann talaði um heimilisofbeldi, þolendur og úrræði á alvarlegum nótum þá hefur hún verið gagnrýnd fyrir að láta eins og um rómantíska gamanmynd sé að ræða.
Það sem hefur þó valdið Lively mestum skaða eru óþægileg viðtöl og augnablik sem hafa verið birtast undanfarnar vikur. Fyrst var það viðtal hennar frá árinu 2016 við norska blaðamanninn Kjersti Flaa. Sú norska, sem er í dag verðlaunablaðamaður, birti upptöku af viðtalinu á samfélagsmiðlum og sagðist hafa verið að íhuga að hætta í faginu útaf því hvað viðtalið var óþægilegt.
Nú er annað viðtal að vekja athygli. Í því er Lively ólétt og aðspurð hvort eiginmaður hennar, leikarinn Ryan Reynolds, nuddi á henni fæturna á kvöldin segir hún það óþarfi og að óléttar konur ljúgi um þessi einkenni sem og önnur. Undir lokin segist hún vera að djóka en margir aðdáendur eru ekki sáttir.
Klippan hefur fengið næstum níu milljónir áhorfa og þúsundir hafa skrifað við það. Margir gagnrýna Lively en aðrir koma henni til varnar og segja hana augljóslega hafa verið að grínast.
„Þetta er svo sorglegt, af hverju myndi hún segja eitthvað svona?“ segir einn netverji.
„Hvernig sér fólk ekki að hún er að grínast?!“ segir annar.
„Hún bókstaflega sagði: „Ég er að djóka.“ Þetta er kaldhæðni!“ segir ein.