fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Leiðarahöfundur Morgunblaðsins kastar grjóti úr glerhúsi

Eyjan
Fimmtudaginn 22. ágúst 2024 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins leggst venju fremur lágt í leiðaradagsins og kallar hann þó ekki allt ömmu sína þegar kemur að lágkúrulegum árásum á pólitíska andstæðinga sína.

Leiðarahöfundur, sem orðið á götunni segir að sé Davíð Oddsson, byrjar leiðarann á þessum orðum: „Yfirgengilega orlofssugan, Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs …“ Næsta málsgrein hefst svo: „Á borgarstjóratíð sinni lofaði „orlofssugu óhemjan“ …“

Orðið á götunni er að orðanotkun og nafngiftir af þessu tagi bendi til þess að sá sem slíku beitir gangi tæpast heill til skógar, sé jafnvel haldinn framheilaskaða, sem er vitaskuld ekkert gamanmál.

Orðið á götunni er jafnframt að með þessu skrifum kasti leiðarahöfundur grjóti úr glerhúsi, sem jafnan er talið fremur óklókt. Til dæmis sé hægðarleikur einn að benda á að greiðslur á uppsöfnuðu orlofi til fyrrverandi borgarstjóra séu hvergi nærri einsdæmi.

Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar létu nokkrir bæjarstjórar, sem setið höfðu um árabil í sínum störfum, af embætti. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, lét af embætti eftir 15 ár í starfi. Hann fékk 9,6 milljónir í orlofsuppgjör.

Ármann Kr. Ólafsson lét af embætti sem bæjarstjóri í Kópavogi eftir tíu ár í starfi og fékk um sjö milljónir í orlofsuppgjör. Gunnar Einarsson hætti sem bæjarstjóri í Garðabæ eftir 17 ár og fékk 7,8 milljónir í orlofsuppgjör. Einnig hættu Ásgerður Halldórsdóttir á Seltjarnarnesi og Aldís Hafsteinsdóttir í Hveragerði eftir langt starf og fengu sitt uppgjör.

Allt eru þetta sjálfstæðismenn, flestir ef ekki allir á hærri launum en borgarstjóri höfuðborgarinnar, en leiðarahöfundi Morgunblaðsins þótti ekki ástæða til að fjalla um orlofsuppgjör sveitarstjóra fyrr en Samfylkingarmaðurinn Dagur B. Eggertsson, fékk við sín starfslok uppgjör sem er í fullum takti við uppgjör við sjálfstæðismennina í minni sveitarfélögum.

Orðið á götunni er að hin raunverulega ástæða fyrir fúkyrðaflaumi leiðarahöfundar í garð Dags B. Eggertssonar sé tvíþætt. Höfundurinn telur Dag höfund borgarlínunnar, sem er einn hornsteinn samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, en í gær var einmitt skrifað undir uppfærslu á honum, nokkuð sem virðist pirra leiðarahöfundinn óendanlega. Í annan stað er uppgangur Samfylkingarinnar mikill um þessar mundir og niðurlæging Sjálfstæðisflokksins söguleg. Dagur B, Eggertsson er einmitt gjarnan nefndur sem verðandi lykilmaður í þingliði Samfylkingarinnar og líklegur ráðherra í næstu ríkisstjórn.

Orðið á götunni er að það sé mikil bíræfni hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins að gagnrýna aðra fyrir að soga að sér opinbera fjármuni. Sjálfur hafi hann árið 1991 samtímis verið bæði borgarstjóri og forsætisráðherra en aldrei sést á skrifstofum Reykjavíkurborgar þrátt fyrir að þiggja full laun frá bæði ríki og borg.

Þá er einnig eftirminnilegt að Davíð Oddsson lét samþykkja eftirlaunalög fyrir æðstu embættismenn, er hann gegndi starfi forsætisráðherra, sem voru sérhönnuð til að tryggja honum hærri eftirlaun en áður höfðu tíðkast. Orðið á götunni er að með réttu ætti að kalla þessi eftirlaunalög Davíðslögin vegna þess að Davíð Oddsson sé í raun eini maðurinn sem njóti eftirlauna að fullu í samræmi við þau. Lögunum var síðar breytt og eftirlaunaréttur skertur en sú skerðing á ekki við Davíð vegna þess að hún getur ekki verið afturvirk.

Samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar námu mánaðarlaun Davíðs Oddssonar 6,3 milljónum á síðasta ári. Orðið á götunni er að um tvær milljónir af þessum 6,3 séu laun sem hann fær frá Árvakri fyrir að skrifa Staksteina, leiðara og Reykjavíkurbréf í Morgunblaðið. Um tvær milljónir fái hann sem fyrrverandi forsætisráðherra. það sem upp á vantar fær hann vegna eftirlaunaréttar sem fyrrverandi borgarstjóri og seðlabankastjóri.

Orðið á götunni er að leiðarahöfundur Morgunblaðsins sé öflugasta, gráðugasta og ósvífnasta fjársugan sem fyrirfinnst hér á landi – enginn komist með tærnar þar sem hann hafi hælana, ekki einu sinni sveitarstjórar Sjálfstæðisflokksins sem eru á hærri launum en borgarstjóri fyrir að stýra sveitarfélögum sem eru einungis brot af stærð Reykjavíkur.

Orðið á götunni er að æðstu embættismenn njóti óeðlilega góðra kjara hvað varðar uppsafnað orlof, eftirlaun og fleira en ósæmilegt sé að taka einn mann út fyrir sviga, væna hann um lögbrot og ráðast að honum með fúkyrðaflaumi líkt og leiðarahöfundur Morgunblaðsins gerir í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sakar dómsmálaráðherra um spillingu – „Hérna, en síðan hvenær var ríkislögreglustjóri í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum? “

Sakar dómsmálaráðherra um spillingu – „Hérna, en síðan hvenær var ríkislögreglustjóri í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum? “
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Fimmta sætið

Steinunn Ólína skrifar: Fimmta sætið