Í yfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að lífslíkur þeirra sem ekki fá meðferð við sjúkdómnum sé um nítján ár og það eitt að vera fluttur upp í flugvél geti orðið honum að bana.
Vísað er í læknisvottorð Yazan þar sem fram kemur að rof á þeirri þjónustu sem hann fær geti verið lífshættulegt og stytt ævi hans. Þar kemur einnig fram að 30% drengja með Duchenne-vöðvarýrnun deyja í kjölfarið á falli eða hnjaski. Fagfélög á borð við ÖBÍ, Þroskahjálp, Einstök börn og Duchenne-samtökin hafa fordæmt yfirvofandi brottvísun.
„Ekkert flugfélag sem státar sig af samfélagslegri ábyrgð ætti að sætta sig við það að framkvæma illvirki á borð við það að senda langveikt og dauðvona barn úr landi og á götuna á Spáni þar sem það verður, án dvalarleyfis og læknisþjónustu. Þetta er ekki eitthvað sem við getum látið bjóða okkur. Að öllu óbreyttu á Yazan aðeins örfá ár eftir ólifuð,“ segir í yfirlýsingu No Borders Iceland.
„Að lokum vill No Borders Iceland árétta það að öll þau flugfélög og það lögreglufólk sem tekur þátt í brottvísun Yazan eru jafn meðsek í því ódæðisverki og sjálfir ráðamenn, við höfum öll okkar val um að standa upp og gera það sem er rétt. Við hvetjum öll flugfélög til þess að velja mannúð og samfélagslega ábyrgð og vonum að bæði lögreglan og stjórnvöld sjái sóma sinn í að gera það líka, jafnvel þótt það væri ekki af fyrra bragði. Yazan á heima hér,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.