fbpx
Föstudagur 16.ágúst 2024
Fréttir

Fordæmir sérmeðferð fyrir háttsetta hjá borginni – „Það er ekki sama Jón og séra Jón“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 16. ágúst 2024 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir athyglisvert að lesa fréttir um þær tæplega 10 milljónir sem Dagur B. Eggertsson fékk frá borginni út af ónýttum orlofsdögum í borgarstjórastól. Það sé greinilega munur á því hvort borgin sé að gera upp við Jón eða séra Jón.

Sólveig Anna vekur athygli á því á Facebook að í kjarasamningsviðræðum árið 2020 krafðist borgin þess að í samninga yrði tekið upp ákvæði um fyrningu á ónýttu orlofi. Það er eftirfarandi grein:

„Hafi starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dögum, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.“

Alþýðusambandið hafi frá 2022 ítrekað upplýst borgina um að sjálfkrafa fyrning orlofs sé óheimil og því til stuðnings vísað til dómafordæma Evrópudómstólsins. Borgin hafi ekki fallist á þessa afstöðu.

„En nú kemur í ljós að þegar um borgarstjóra er að ræða, hæst launaða einstakling borgarkerfisins og þann valdamesta, virðist ekkert standa í vegi fyrir því að flytja daga á milli orlofstímabila árum saman, og fá þá svo alla greidda út við starfslok.

Fyrir mér rifjast upp (trúrækin var ég einu sinni og mjög kirkjurækin…) tuttugasti og þriðji kafi Matteusarguðspjalls, fyrsta vers, en í því segir meðal annars:„Því skuluð þér gera og halda allt sem þeir segja yður en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara því þeir breyta ekki sem þeir bjóða. Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.“ Eða eins og við segjum á eyjunni okkar: Það er ekki sama Jón og séra Jón.“

Dagur segist skilja gagnrýni á uppgjörið, en staðan hafi verið sú að honum reyndist erfitt að taka fullt frí sem borgarstjóri. Þetta hafi safnast upp m eð árunum. Hann sagði þó í samtali við Vísi að sömu reglur hafi gilt um aðra starfsmenn og stjórnendur borgarinnar, að það sé gert upp orlof við starfslok. Aðspurður hvort hann kannaðist við að aðrir fengju greitt svo langt aftur í tímann sagðist Dagur ekki þekkja „orlofsgreiðslur aftur í tímann“.

Formaður Sameykis, Þórarinn Eyfjörð, sagði í samtali við mbl.is í gær að stjórnendur eigi að sjá til þess að þeirra eigin orlofstaka sé með eðlilegum hætti svo jafnræðis sé gætt. Að gera upp orlof tíu ár aftur í tímann sé óvenjulegt og lengra en Sameyki hefur séð hjá sínu félagsfólki, en málið megi þó líta þeim jákvæðu augum að það gefi tóninn með að ótekið orlof til lengri tíma sé gert upp með peningagreiðslu. Mál Dags sé fordæmisgefandi og verkalýðshreyfingin muni halda því á lofti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslensk blúsgoðsögn lést í brunanum við Amtmannsstíg

Íslensk blúsgoðsögn lést í brunanum við Amtmannsstíg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þrjóska Úlfgríms bjargaði Margréti úr eldsvoðanum í gær

Þrjóska Úlfgríms bjargaði Margréti úr eldsvoðanum í gær